Öryrkjar og aldraðir greiða minna fyrir tannlækningar frá áramótum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar öryrkja og aldraðra eykst 1. janúar næstkomandi úr 50% í 57%.

Þetta er liður í áætlun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga.

Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þessa nemur 200 milljónum króna. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tannlækniskostnaðar þessara hópa verði komin í 75% árið 2024.

Til að ná því markmiði er í gildandi fjármálaáætlun gert ráð fyrir að framlög hins opinbera verði aukin um 200 milljónir króna á næstu fjórum árum.

Eins og áður hefur verið greint frá lækka komugjöld í heilsugæslu úr 700 krónum í 500 krónur 1. janúar næstkomandi. Þá verður einnig fellt niður sérstakt komugjald hjá þeim sem sækja aðra heilsugæslustöð en þeir eru skráðir hjá.

Um áramótin tekur heilsugæslan um allt land við skimunum fyrir krabbameini í leghálsi og lækkar þá gjald fyrir leghálsstrok úr 4.818 krónum í 500 krónur.

DEILA