Hlýri til rannsóknar hjá Hafró

Staða hlýrastofnsins við Ísland er í sögulegu lágmarki og hefur farið minnkandi frá árinu 1996.
Hlýri var settur í aflamarkskerfið fyrir nokkrum árum, en sjómönnum hefur gengið illa að veiða ekki umfram kvóta m.a. vegna þess að hlýri veiðist almennt sem meðafli.

Á þessu ári var ákveðið á fundi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunnar, SFA og útgerðamanna að fá heimild til að sleppa hlýra sem veiðist og gekk sú heimild í gildi þann 14. desember 2020.
Vonast er til með þessari heimild, að sjómenn sleppi þeim hlýra sem þeir veiða umfram kvóta og það dugi til að bæta stöðu stofnsins. Í ljósi þessara aðstæðna hafa menn velt fyrir sér lífslíkum hlýra eftir veiðar, álitið er út frá athugunum að þær séu talsverðar eftir botnvörpuveiðar.

Frumathugun hjá Hafrannsóknastofnun sýndi að hlýri sem veiddur var í botnvörpu virtist þola 1-2 tíma í móttöku eða á færibandi áður en honum var sleppt, en til stendur að rannsaka þetta nánar á næsta ári.
Engar rannsóknir hafa hinsvegar verið gerðar á lífslíkum hlýra eftir að hann hafa veiðst á línu.

Hafrannsóknastofnun rannsakaði á þessu ári, í samstarfi við áhöfn Sighvats GK, lífslíkur hlýra eftir línuveiðar. Sighvatur GK er gerður út af Vísi hf. og byrjar veiðar út af Norðurlandi á haustin og standa þær fram eftir vetri, en þeim er nýlokið í ár.

Á lokadegi í hverri veiðiferð safnaði áhöfnin, annars vegar fimm hlýrum sem fóru hefðbundna leið í gegnum slítara og hins vegar fimm sem leystir voru af króknum með handafli. Þeim var síðan komið fyrir í kari með rennandi sjó og var landað á Siglufirði þar sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tóku við þeim.

Á Hjalteyri hefur Hafrannsóknastofnun komið upp rannsóknaraðstöðu þar sem hlýrinn var settur í krabbagildrur sem var komið fyrir á hafsbotni.
Fylgst var með hlýrunum næstu 4 sólarhringa og að því loknu var þeim sem lifðu af, sleppt aftur í hafið.

Til stendur að rannsaka þetta frekar á næsta ári.
Þær niðurstöður sem þegar eru komnar benda til að lífslíkur hlýra eftir að hafa veiðst á línu og sleppt séu talsverðar.

DEILA