Galdrasýning á Ströndum fagnar núna 20 ára afmæli sínu. Vegna fjöldatakmarkana hefur hátíðarhöldum verið aflýst en þess í stað hefur verið sett upp afmælissýning þar sem greint er frá nokkrum áföngum í sögu sýningarinnar sem vert er að minnast og margar skemmtilegar myndir birtar. Aðstandendur Galdrasýningarinnar telja að á erfiðum tíma sem þessum sé mikilvægt að líta yfir farinn veg og fagna því sem hefur áunnist og tekist vel.
Galdrasýningin er á Hólmavík í Strandasýslu og var fyrst opnuð á Jónsmessu árið 2001. Sýningin segir frá galdrafárinu á 17.öld og fjölbreyttum göldrum og galdrastöfum sem brúkaðir voru á Íslandi. Stofnunin hefur á þessum tíma víkkað starfsemi sína með Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði og unnið að mörgum verkefnum eins og útgáfu á efni, fjölbreyttum viðburðum og rannsóknum. Galdrasýningin er eina sýningin sem opin allt árið um kring á Vestfjörðum og ætlar að halda því ótrauð áfram. Öllum er boðið að koma og skoða afmælissýninguna sem mun standa út komandi ár.