Bolungavík: gamla símstöðin endurbyggð

Ákveðið hefur verið að endurbyggja Aðalstræti 16 í Bolungavík og er gert  ráð fyrir að klára húsið að utan fyrir veturinn 2021-2022.

Húsið er nú í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar sem hlaut styrk frá Húsafriðunarsjóði árið 2020 fyrir rannsóknum, uppmælingu og tillögugerð. Í júlí 2020 var húsið mælt upp af Sei Studio sem í kjölfarið hefur unnið tillögur og áætlun um uppgerð hússins sem meðal annars miðar að því að auka öryggi gangandi vegfaranda.

Húsið er sérstakt fyrir þær sakir að árið 2014 var það viljandi skemmt og hluti þess brotinn niður. Húsið stendur nærri Aðalstræti og dregur úr öryggi gangandi vegfaranda sem eiga leið um strætið.

Húsið er lágreist timburhús, með mænisþaki byggt á hlöðnum og steyptum grunni í látlausum, hefðbundnum stíl. Kjallari er gömul kolageymsla og kyndiklefi með lágri lofthæð. Húsið var upphaflega byggt í Látrum í Aðalvík árið 1909 en var flutt til Bolungarvíkur um 1930 og hefur staðið þar síðan. Í húsinu var fyrsta símstöðin í Bolungavík og símstöðvarstjórinn bjó í því.

Við flutninginn, eða fljótlega þar á eftir, voru ýmsar breytingar gerðar á húsinu og var búið í því allt til ársins 2012 en það hefur staðið autt síðan þá.

DEILA