Á aðfangadagskvöld og jóladag er hátíðatón Bjarna Þorsteinssonar vant að hljóma í kirkjum landsins. Þetta messutón hæfir helst tenórum og öðru góðu söngfólki. Við hinir minni spámenn höfum samt reynt að tóna á jólum af dulitlum innileika: Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn! Síðan hefur kórinn sungið fallega jólasálma og þá hafa hjötun opnast fyrir friði og helgi jólanna.
Jólin eru ævintýrahátíð. Þau snúast um ævintýralega góðan mat, gjafir sem gleðja, bros ástvinanna. Og síðan eru það öll ævintýrin með jólasveinunum, James Stewart í svarthvítri mynd og ævintýrinu um Maríu og Hnetubrjótinn, sem lifnar við á jólanóttina. Seinna var reyndar farið að kalla stúlkuna Klöru eða Mashju eftir því hvar var verið að setja upp ballettinn.
Eitt af því, sem gerir jólin svo sérstök, er að þar er í bakgrunni saga af fátækum hjónum, sem eignast barn, sem lagt er í hálmjötu. Líklega hafa þau María og Jósef gist í fjárhúshelli. Slíka hella er enn að finna í nágrenni Betlehem þar sem Bedúínar geyma stundum kindur sínar á næturna eða þegar vont veður kemur. Þótt ekki verði margmennt í kirkjunni í Betlehem þessi jólin þá munu munkarnir engu að síður syngja jólasálmana og tóna Guði dýrð í upphæðum.
Það er mikilvægt að saga jólanna skuli snúast um komu barns í heiminn. Ekkert er jafn yndilsegt og nýfætt barn, fátt jafn viðkæmara en það. Og ekki er til svo hart mannshjarta að viðkomandi komist ekki við í anda þegar hann sér nýfætt barn kúra innvafið í teppi. Sérhvert barn minnir okkur á Guð, þann Guð, sem birtist í Jesú Kristi, og sagði að mikilvægasta afl heimsins væri kærleikurinn. Og það er einmitt það, sem börnin gera, þau vekja kærleikann í hjörtum okkar. Þess vegna eru jólin hátíð kærleikans og hátíð barnanna.
Það eru forréttindi að halda heilög jól með börnum. Fá að vera sjálfur barn um stund og upplifa með þeim undur jólanna, eftirvæntinguna og gleðina. Og hafi maður ekki börn í kringum sig þá má alltaf rifja upp gömlu góðu jólin heima þegar mamma stakk grenigreinum á bak við allar myndir í stofunni til að gera jólailm og amma gamla vökvaði ensku jólakökuna með serrýi allan desembermánuð og setti hana svo á ofninn í stofunn á aðfangadag til að fá jólailm um íbúðina. Allt þetta man ég enda þótt meira en hálf öld sé liðin síðan þetta var. Enn get ég fundið ilminn af þessu öllu saman. Enn blundar í mér svolítið jólabarn.
Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.
Magnús Erlingsson,
prófastur á Ísafirði.