Ástand vegkafla sem liggja um Mikladal og Tálknafjörð sem og um Barðaströnd er mjög alvarlegt. Vegkaflarnir eru illa farnir og slitlag á stórum köflum er horfið, þrátt fyrir tilraunir Vegagerðarinnar til lagfæringa í sumar.
Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandinu og segir aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður. Bæjarráðið vill að Vegagerðin fái fjárframlög til þess gera nauðsynlegar lagfæringar.
Þá bendir bæjarráðið á að Bíldudalsvegur í Arnarfirði sé hreinlega horfinn á köflum og vill að framkvæmdum við veginn sem fyrirhugaðar eru verði flýtt.
Bókun bæjarráðsins:
„Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af alvarlegu ástandi vegkafla sem liggja um Mikladal og Tálknafjörð (63) sem og um Barðaströnd (62). Vegkaflarnir eru illa farnir og slitlag á stórum köflum er horfið, þrátt fyrir tilraunir Vegagerðarinnar til lagfæringa í sumar. Enda eru margir vegkaflar innan Vesturbyggðar 100% ónýtir vegir skv. úttekt Vegagerðarinnar frá júlí 2019. Að mati bæjarráðs er aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður á þessum vegköflum og ítrekar mikilvægi þess að á meðan ekki er unnt að bregðast við ástandinu með viðunandi lagfæringum, að Vegagerðinni verði tryggð framlög til að gera nauðsynlegar lagfæringar og stórauka merkingar og upplýsingagjöf um alvarlegt ástand vegkaflanna, til að draga úr hættu á að alvarlegt slys verði.
Bæjarráð ítrekar bókun sína frá 21. apríl 2020 og hvetur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að taka á þessu máli og ástandi vega á sunnanverðum Vestfjörðum af fullri alvöru og tryggja að brugðist verði við þessu alvarlega ástandi sem allra fyrst. Ljóst er miðað við ástand vega og stóraukna umferð á sunnanverðum Vestfjörðum, er nauðsynlegt að hefja sem allra fyrst undirbúning jarðgangagerðar á sunnanverðum Vestfjörðum, m.a. til að tryggja
öruggari samgöngur með jarðgöngum um Hálfdán (500 m.yfir sjávarmáli) og Mikladal (369 m. yfir sjávarmáli).
Jafnframt lýsir bæjarráð Vesturbyggðar miklum áhyggjum yfir ástandi Bíldudalsvegar í Arnarfirði sem er að hluta til horfinn. Í ljósi alls væri eðlilegt að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum á því svæði svo hægt sé að koma í veg fyrir endurtekið tjón á veginum. Sú framkvæmd myndi létta á þungaflutningum sem fer um aðra vegi í sveitarfélaginu.“