Áki Sigurðsson

Kveðja frá samstarfsmönnum.

Það lætur ekki mikið yfir sér,  þorpið í fámenni sínu. Skapar þeim þó einatt er þar alast upp víðtækari reynslu en þeim í fjölmenninu. Þar munar meira um einn. Menn þurfa jú að bjarga sér.

Áki Sigurðsson, sem við kveðjum í dag er sprottinn úr slíku umhverfi. Á margan hátt holdgervingur þess umhverfis. Fæddur og uppalinn í Súðavík sem lúrir undir fjöllum Álftafjarðar. Öflugt mannlífið þar og ekki síst atvinnulífið sem kallaði allar vinnufúsar hendur til verka.

Það má segja að Áki hafi gengið tækniveginn. Rafvirkjunin varð snemma hans fag. Súðvíkingar voru margra manna makar í uppbyggingu atvinnulífs,  sérstaklega á áttunda og níunda áratug síðustu aldar Á þeim tíma hlaut Áki eldskírn sína. Sótti fljótt í flókin og erfið verkefni á sínu sviði enda barst orðstír hans víða.

Þegar hann á árinu 1997 tók að sér fyrstu verkefnin fyrir 3X Stál var hann þegar orðinn einn af reynslumestu rafhönnuðum landsins í stórum  verkefnum í sjávarútvegi hvort sem það var til lands eða sjávar, innanlands eða utan. Hann kom síðan að fullu til starfa hjá fyrirtækjum Skagans3X í upphafi árs 2009 og starfaði þar óslitið síðan.

Í hans huga var ekkert vandamál óleysanlegt heldur einungis misjafnlega flókið úrlausnar. Hann vann störf sín af festu, harðduglegur og ósérhlífinn alla tíð. Þá var honum einstaklega lagið að setja sig í spor viðskiptavina, skilja þarfir þeirra og vinna með þeim að farsælli lausn.

Þrátt fyrir hæglátt fasið stóð hann ætíð fastur á sínu ekki síst þegar hann taldi þörf á betri lausnum. Best naut hann sín á vettvangi hjá viðskiptavinum og var fyrstur til að taka að sér verkefni, ekki síst þau sem voru erfið úrlausnar. Það var í einni slíkri ferð á fjarlægum slóðum sem hann kenndi sér skyndilega alvarlegs meins sem enginn mannlegur máttur réði við.

Fráfall hans í miðjum önnum er okkur samstarfsmönnum hans mikið áfall. Alvörugefni og trausti félaginn sem jafnframt gat verið hrókur alls fagnaðar er horfinn á braut og um leið einn reynslumesti og dyggasti starfsmaðurinn.

Minningin mun lifa ekki síst hjá afkomendum hans sem nú syrgja fjölskylduklettinn Áka.

Stjórnendur Skagans 3x og samstarfsmenn hans  senda börnum hans, barnabörnum, foreldrum og öðrum ættingjum innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd samstarfsmanna.

Albert Högnason

Jakob Tryggvason

Karl Ásgeirsson

Halldór Jónsson

Ingólfur Árnason

DEILA