Vestfirðir: skortur á bóluefni gegn inflúensu

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ekki getað staðið við boð til Vestfirðinga á norðanverðum Vestfjörðum í áhættuhópi um bóluefni gegn inflúensu. Fyrir nokkrum vikum fengu íbúar í áhættuhópi sent heim bréf frá Heilbrigðisstofnuninni þar sem þeim var boðið að skrá sig í bólusetningu á Ísafirði.

Bæjarins besta er kunnugt um allnokkra sem tóku boðinu og höfðu samband og skráðu sig.  Síðan hefur ekkert gerst og ekkert bólar á því að viðkomandi séu kallaðir til bólusetningar.

Bóluefnið búið – ekki von á meiru

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Hvest,  var inntur eftir því hvað liði bólusetningunni og hvort skortur væri á bóluefni.

Gylfi sagði að fleiri hefðu óskað eftir bólusetningu en síðustu ár, bæði hjá HVest og á öðrum stofnunum í kringum landið. „Við kláruðum bóluefnið fyrir nokkru, og þegar við sáum í hvað stefndi var farið að forgangsraða frekar harkalega svo fólk í mestri áhættu fengi. Við höfum ekki getað fengið meira bóluefni frá heilbrigðisyfirvöldum á landsvísu og ekki er von á meiru.“

Gylfi segir að keypt hafi verið  svipað magn og síðustu ár, sem hafi jafnan dugað. Hann segir að rúmur mánuður sé síðan Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins kláraði sinn skammt og örfáir skammtar sé eftir en þeir eru, að sögn Gylfa, eyrnamerktir fólki sem er í hvað mestri áhættu.

„Ánægjulegu fréttirnar í þessu er að fólk er orðið verulega duglegra og áhugasamara um að koma í bólusetningu, sem mun verða til þess að við pöntum meira bóluefni í framtíðinni, fleiri fá bóluefni og líkurnar á flensufaraldri minnkar. Þá er sennilegt að sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19 hafi einnig hamlandi áhrif á útbreiðslu inflúensu.“

DEILA