Þórsberg : hagnaður 15% fyrir fjármagnskostnað

Þórsberg á Tálknafirði.

Afkoma útgerðarfyrirtækisins Þórsbergs ehf á Tálknafirði fyrir fjármagnskostnað varð á síðasta fiskveiðiári svipuð og var árið áður. Ársreikningur fyrirtækisins miðast við fiskveiðiárið og er frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.

Tekjurnar urðu 412 milljónir króna og hagnaður  eftir rekstrarkostnað og afskriftir varð um 60 milljónir króna. Launakostnaður varð um 161 milljón króna og ársverkin voru 8.

Fjármagnskostnaður varð nærri 200 milljónir króna, þar af gengismunur 139 milljónir króna, en hafði engin verið árið áður.   Niðurstaðan rekstrarreiknings varð því tap upp á 112 milljónir króna í stað 13 milljóna króna hagnaðar árið áður.

Eiginfjárstaða fyrirtækisins er nokkuð sterk. Eignir eru bókfærðar upp á 3,1 milljarð króna og skuldir voru 1,7 milljarður í lok reikningsársins. Bókfært eigið fé er 1,4 milljarðar króna  eða 45%. Langstærstur hluti eigna eru veiðiheimildir sem eru bókfærðar á 2,8 milljarða króna. Alls fékk fyrirtækið úthlutað 1.392 þorskígildistonnum.

Ætla má miðað við verð á veiðiheimildum í krókaaflamarkinu að markaðsvirði veiðiheimildanna geti verið 3,8 milljarðar króna eða um 1 milljarði króna hærra en bókfært verð.

Hluthafar í upphafi og lok rekstrarárs voru 8 talsins. Hluthafar eru:
Litli vinur ehf. ……………………………………………………………… 92.889.554 51,35%
Byggðastofnun …………………………………………………………….. 30.191.091 16,69%
Hvetjandi …………………………………………………………………….. 9.680.000 5,35%
Guðjón Indriðason ………………………………………………………      9.625.738 5,32%
Indriði Kristinn Guðjónsson ……………………………………….           9.625.738 5,32%
Jóna Valdís Guðjónsdóttir ……………………………………………         9.625.738 5,32%
Kristrún A. Guðjónsdóttir …………………………………………..           9.625.738 5,32%
Magnús Kristján Guðjónsson ………………………………………           9.625.738 5,32%

Athuga ber að kaup Þórsberg á Grábrók, sem Bæjarins besta hefur greint frá, breyta hluthafaskrá þar sem Brim er orðinn 41% eigandi hlutafjárins og veiðiheimildir félagsins hafa aukist um 56%.

 

DEILA