Stafræn vinnuvélaskírteini

Ný stafræn vinnuvélaskírteini hafa verið tekin í gagnið.
Skírteinin sanna fyrir lögreglu að stjórnandi ökutækis sé með gild ADR- eða vinnuvélaréttindi.

Skírteinin virka eins og stafrænu ökuskírteinin sem tekin voru í gagnið 1. júlí síðastliðinn og hafa bæði framhlið og bakhlið.

Á framhlið vinnuvélaskírteinanna er að finna persónuupplýsingar skírteinishafa og útgáfudag en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með og gildistími þeirra.

Á framhlið ADR-réttindanna, sem eru fyrir þá sem flytja hættulegan farm, er að finna sömu upplýsingar og á vinnuvélaskírteinunum ásamt gildistíma en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með.

Sótt er um stafræn vinnuvélaskírteini á vefnum Ísland.is þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.

Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður en stafrænu vinnuvélaskírteini er hlaðið niður. Það er þegar til staðar í iPhone símum.

DEILA