Sautján skipstjórnarmenn sem starfa hjá Samherja segjast vera nú án stéttarfélags í kjölfar þess að Félag skipstjórnarmanna tók ákvörðun um að kæra eigin félagsmann til lögreglu í kjölfar hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni í október.
Í yfirlýsingu frá þeim segir meðal annars:
Vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga vilja undirritaðir, skipstjórnarmenn hjá Samherja, koma eftirfarandi á framfæri:
Við viljum byrja á því að taka það skýrt fram að við ætlum ekki að leggja mat á mál skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar og áhafnar hans. Það mál – sem er fordæmalaust á fordæmalausum tímum – þarfnast vissulega ítarlegrar skoðunar, því svona nokkuð má aldrei gerast aftur. Málið er í sínum rétta farvegi – í Sjóprófum – og við bíðum niðurstöðu þeirra.
Það hlýtur að vera einsdæmi að stéttarfélag fari þá leið að kæra eigin félagsmann og einungis einn eða tveir menn hjá félaginu komi að þeirri ákvörðun.
Þau viðtöl sem birst hafa í sjónvarpi eftir svokölluð Sjópróf og sú umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum síðustu daga gefa kolranga mynd af raunveruleikanum til sjós. Varpað hefur verið upp þeirri mynd að hreinlega sé farið illa með menn til sjós og að þeir séu réttlitlir eða réttlausir um borð. Slíkar rangfærslur er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við, því ekkert er fjær sanni.
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér.