Öryggishnappar fyrir aldraða Ísafirði: hætta niðurgreiðslu bæjarins

Hlíf. Mynd: Ísafjarðarbær.

Markmið Ísafjarðarbæjar með því að setja upp bakvöktum við Slökkvilið Ísafjarðar við vöktun öryggishnappa er að lækka kostnað bæjarins. Í minnisblaði Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra , sem lagt var fyrir bæjarráð, kemur fram að kostnaður bæjarins við bakvaktirnar sé um 8 milljónir króna á ári auk annars kostnaðar s.s. rekstur á bifreið fyrir vakthafandi starfsmann. Tekjur bæjarins fyrir hnappana eru u.þ.b. kr. 5 millj á ársgrundvelli. „Bærinn er því að greiða umtalsvert með þjónustunni á ári“ segir í minnisblaðinu sem Bæjarins besta hefur fengið afhent.

Þá þarf að endurnýja öryggishnappana og er áætlað að muni kosta bæinn um 1 milljón króna við óbreytt fyrirkomulag.

Bæjarráðið samþykkti tillögu bæjarstjóra um að segja upp bakvöktunum og semja við öryggisfyrirtæki um vöktun á 31 öryggishnöppum á Hlíf 1. Á Hlíf 2 og annars staðar á svæðinu s.s. Þingeyri, Flateyri og Bolungavík eru 27 hnappar sem bærinn hefur engar skyldur við, samkvæmt því sem fram kemur i minnisblaðinu, og þeir íbúar semji sjálfir við öryggisfyrirtæki og greiði fyrir þjónustuna.

Kostnaður við grunnþjónustu öryggishnapps með útkallsþjónustu er kr. 8.050 á mánuði þ.a. er niðurgreiðsla Sjúkratrygginga kr. 5.500 og notandinn greiðir því kr. 2.550 á mánuði að teknu tilliti til niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum, segir í minnisblaðinu.

Það er mat bæjarstjóra að mánaðarleg greiðsla notenda verði sambærileg og hún er í dag m.t.t. niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum. „Ísafjarðarbær er því ekki lengur aðili að málinu, að öðru leyti, eða tekur þátt í kostnaði við öryggishnappana.“

Núverandi fyrirkomulag lýkur 31.1. 2021 og þá mun Ísafjarðarbær vera búinn að semja við öryggisfyrirtæki vegna vöktunar öryggishnappa á Hlíf 1.

 

DEILA