Verið er að tengja nýjan ljósleiðara við notendur í Önundarfirði sunnanverðum. Í sumar lagði Snerpa ljósleiðara fá Hóli Önundarfirði út með firðinum sunnarverðum um Betaníukot, Mosvelli, Vaðla, Holt, Þórustaði og þaðan út í Hjarðardal. Svo áfram að Tungu í Valþjófsdal. Orkubú Vestfjarða lagði samhliða ljósleiðarstrengnum rafmagnskapal út í Valþjófsdal.
Þá var lagður ljósleiðari yfir Gemlufallsheiði að Gemlufalli í Dýrafirði og þar með voru tengd saman ljósleiðarasvæðin í Dýrafirði og Önundarfirði.
Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu sagði í samtali við Bæjarin besta að um 7 km langan ljósleiðara hafi verið að ræða. Framkvæmdin var upphaflega ekki inn á átakinu Ísland ljóstengt en var bætt við í vor sem átak til mótvægis við samdrátt í efnahagslífinu af völdum kórónuveirunnar.
Björn sagði að lagning strengsins yfir Gemlufallsheiði hefði leitt af sér að lagður hafi verið rafmagnskapall upp á heiðina og Vofafone setti um 3G sendi þar og nú væri komið símasamband á um 4 km svæði sem áður var sambandslaust.