Minningargrein: Gróa Björnsdóttir

Gróa Guðmunda Björnsdóttir var fædd að Neðrihúsum í Hestþorpi, Önundarfirði  þann 27. desember 1926. Hún lést 10. nóvember 2020 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka úr Covid-19.

Gróa ólst upp á Mosvöllum í Önundarfirði hjá ömmu sinni og afa, Guðbjörgu og Hjálmari. Hún var í barnaskóla í sveit Önundarfjarðar eins og háttur var þess tíma. Búið á öllum bæjum og mörg börn í sveitinni. Samgangur mikill og mynduðust sterk vináttubönd sem héldu ævilangt.

Gróa fór veturinn 1944 – 45 í Héraðsskólann að Laugarvatni. Fleiri úr Önundarfirði fóru að Laugarvatni þann vetur og rifjaði hún oft upp þessa tíma og ræktaði vel vináttutengslin við skólafélagana. Þá fór Gróa í Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1948-49 og var sá vetur einnig mjög kær henni í minningunni. Þar lærði hún vel til verka en auk þess bjó hún að því sem amma hennar hafði kennt henni auk þeirrar næmni sem henni var gefin í vöggugjöf.

Gróa og Haraldur bjuggu allan sinn búskap að Grundarstíg 1 á Flateyri ásamt því að búa að Görðum öll sumur í tvo áratugi. Þar voru þau með útgerðaraðstöðu og fiskvinnslu. Veiddu og verkuðu grásleppu og rauðmaga, harðfisk- og hákarlsverkun. Allt unnið af miklum myndarskap.

Gróa var húsmóðir á stóru heimili þar sem mjög gestkvæmt var bæði á Grundarstígnum og Görðum enda fátt skemmtilegra í þeirra tilveru en að taka á móti gestum að þjóðlegri reisn.

Gróa var virk í félagsstörfum. Hún var gjaldkeri Slysavarnadeiladarinnar Sæljóss á Flateyri um árabil og öll árin í stjórn með sínum góðu vinkonum; Júlíönu Stellu Jónsdóttur og Kristínu Guðmundsdóttur.

Gróa var gullfalleg kona, bros- og hláturmild. Hún átti gott með að sjá broslegu hliðarnar á lífinu og var ánægjulegt að vera henni samferða og eiga við hana spjall. Gróa bjó yfir þeirri gjöf að geta hlustað af skilningi og dýpt, dómharka var víðs fjarri hennar huga.

Gróa kunni ógrynni ljóða og þau Guðmundur Ingi Krisjánsson skáld á Kirkjubóli náðu vel saman í andanum. Orti hann mörg ljóð til vinkonu sinnar og vaknaði eitt þeirra vordag í kaffispjalli á Mosvöllum er Guðbjörg fóstursystir hennar leit upp í hlíðina og sagði: Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa. Gróa var jarðsett í Flateyrarkirkjugarði 19. nóvember 2020. Þann dag voru nákvæmlega 70 ár frá Guðmundur Ingi færði Gróu ljóðið, sem hljóðar svo:

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

Æskan finnur út um holt og móa

enn sinn helgidóm.

Gleymmérei er blá í lautarbarði,

brönugrös um hól.

Varablóm í hlýjum húsagarði

hlær við morgunsól.

 

Sjáðu, hvernig hlíðarlindin létta

leikur tær og hrein

meðan grænir burknar byrja að spretta

bak við urðarstein.

Undan vetri lambagrasið lifir

ljóst við holtið autt.

Blóðberg sérðu breiðast grjótið yfir

brúnt og hjartarautt.

 

Sjáðu, hvernig holtasóley breiðir

hvítu blöðin út

meðan döggvot dúnurt hugann seiðir

dul og niðurlút.

Sjáðu, hvernig fjólan ung og feimin

fer í bláan kjól

meðan ein á bungu, björt og dreymin

brosir melasól.

 

Sjáðu, hvernig dropi á mosadýi

dýra speglar mynd.

Það er eins og ævintýri stígi

upp úr hverri lind.

Vorið opnar út um holt og móa

enn sinn leyndardóm.

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

Hvíl í friði elsku mamma og tengdamamma.


Jóna Guðrún Haraldsdóttir
Björn Ingi Bjarnason

 

DEILA