Bjarni Guðbjörnsson bankastjóri fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1912.
Foreldrar hans voru Guðbjörn Guðbrandsson bókbandsmeistari og Jensína Jensdóttir.
Bjarni kvæntist Gunnþórunni Björnsdóttur árið 1941 og þau áttu börnin Björn Ragnar, Þórdísi og Gunnar Þór.
Bjarni lauk gagnfræðaprófi árið 1930 og vann ýmis störf næsta áratuginn. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1941 og sama ár hóf hann störf hjá Útvegsbankanum í Reykjavík.
Eftir starfsnám í Privatbanken í Kaupmannahöfn og Skandinaviska Banken í Stokkhólmi tók Bjarni við útibússtjórastöðu Útvegsbankans á Ísafirði 1950. Bjarni var farsæll útibússtjóri næstu 23 árin, á tíma sem eftirspurn eftir lánsfé var miklu meiri en framboð og lán voru skömmtuð. Bjarni náði með mikilli útsjónarsemi að styrkja atvinnulíf Ísafjarðar á þessum erfiðu tímum.
Frá Ísafirði fór Bjarni suður 1974 og var eitt ár útibússtjóri Útvegsbankans í Kópavogi, en tók þá við sem bankastjóri Útvegsbankans og gegndi því embætti til starfsloka 1983. Bjarni var virkur í félagsmálum, sat m.a. í bæjarstjórn Ísafjarðar í 22 ár og þar í forsæti í fjögur ár, í stjórn fiskveiðasjóðs og iðnþróunarsjóðs og var norskur vararæðismaður á Ísafirði í 22 ár.
Bjarni var alþingismaður Vestfirðinga fyrir Framsóknarflokkinn 1967-1974.
Bjarni lést 29. janúar 1999.
Menningar Bakki.