Ég man ekki stundina þegar besti vinur minn dó?
Ég man ekki um hvað besti vinur minn og ég töluðum um?
En samt minnist ég hans hvers daxs.
Mikið undur er minnið svo undarlegt að oft man maður ekki hverju maður er búinn að gleyma? Ég man til að mynda ómögulega eftir því þegar besti vinur minn dó. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að þá var ég bara 5 ára. Ég man heldur ekki eftir því um hvað ég og besti vinur minn töluðum um. Samt hefur þessi besti vinur minn fylgt mér öll 44 árin sem síðan eru liðin. Ég byrja meira að segja hvern dag á því að banka uppá hjá honum. Eða réttara sagt að banka á barometið sem hann átti og ég fékk eftir hans dag. Hann svarar alltaf bankinu mínu en sjaldan er svarið það sama. Stundum er svarið Storm, stundum Regn, stundum Foranderligt eða Sumkt en vænst þykir mér um svarið Meget smukt. Suma daga enda ég líka á því að banka aftur upp hjá honum en það er aðeins við sérstök tilfelli. Einsog þegar líðanin er kannski ekki uppá það besta. En vitiði hvað að bara við þetta vinabank við miðnæturbil þá líður mér ávallt mun skárr. Því þá huxa ég til hans og það eru svo góðar minningar þó ég muni í reynd svo fátt.
Hann kom snöggt í mitt líf og hann fór líka snöggt. Einn daginn er við mamma sátum í eldhúsinu, ég þá verið rétt rúmlega þriggja ára og líklega að dýfa mjólkurkexi ofan í mjólkurglas. Enn ein góða minningin sem gaman er að endurtaka ennþann dag í dag allt til handa betri líðan. Sumt breytist ekki og það er vel. Nema hvað allt í einu stendur mamma upp frá eldhúsborðinu og gengur að glugganum.
Jæja, þarna kemur hann elsku karlinn.
Ha, hver, er einhver að koma? Hinn velvirki ég spratt á fætur til að kikka með mömmu útum skjáinn og sjá komugest. Svo stuttur var ég þá að ég náði ekki einu sinni uppí gluggasilluna. Svo mamma náði í koll og setti hann við gluggan. Glókollurinn ég klifraði svo uppá kollinn þó mamma hafði nú boðist til að kippa mér upp á ástandið, en þessi glókollur hennar var snemma sjálfstæður eða ætti kannski frekar að segja þrjóskur, enda Arnfirðingur. Það var einsog í kvæðinu uppá stól stend ég og sé ég þá lítinn skælbrosandi karl er gekk léttum skrefum upp Jónsbúðabrekkuna er lá að æskuheimilinu mínu. Hann var með eitt stykki kommóðu í fanginu. Hann hafði gúmmískó á fótum, var í snjáðum buxum, klæddur jakka er var aðeins of stuttur og með drapplitaðan sixpansara á kolli.
Hver er nú þetta mamma? spurði púkinn ég.
Þetta er hann Lási. Og hann er að flytja til okkar, sagði mamma með væntumþykju.
Gaman, en hvað er hann með í fanginu?
Búslóðina sína, sagði mamma með enn meiri væntumþykju.
Ha, bú hvað, er hann að fara í búðaleik?
Nei, glókollur. Hann heldur á kommóðunni sinni og í henni er allt sem hann á.
Vá, sagði ég á innsoginu, svakalega er hann sterkur og ríkur. Ætli hann sé sjóræningi?
Nei, púkinn minn. Lási er sko engin ræningi en hinsvegar má alveg segja að í koffortinu sé fjársjóðurinn hans. Svona skondrastu nú á móti honum og hjálpaðu honum með gullin sín.
Það þurfti sko ekki að segja mér það tvisvar heldur bara einu sinni. Ég fór nefnilega alveg jafn hratt og uppáhaldssöngvarinn minn söng um í laginu, æ, þið munið. Að ég hljóp svo hratt. Nema ég datt bara ekki jú nema í útbreiddan faðm Lása. Sem knúsaði mig heitt og innilega þó það hafi ekki einu sinni verið búið að finna uppá þessu orði í þá daga. Þá knúsaði hann mig nú samt.
Svo settist ég uppá kommóðuna hans Lása sem hló um leið og hann snýtti sér. Já, hann tók nefnilega í nefið og svo fyllti hann aðeins á nebbakútinn. Því næst gerði hann nokkrar upphitunaræfingar að hætti Skúla Óskarssonar og annarra lyftingakappa þess tíma. Nú svo lyfti hann bara kommóðunni og púkanum sem sat þar ofan á og lallaði af stað. Ég man að ég tók stafinn hans upp, sem ég á enn þann dag í dag já ég fékk líka staf vinar míns, en stafprikið hafði legið ofan á kommóðunni. Stafinn notaði ég einsog ár og þóttist vera vaskur sjóari. Þá hló Lási um leið og hann söng: Hann var sjómaður dáðadrengur.
Svo rérum við og trölluðum alla leið heim á æskuheimilið mitt, Birkihlíð, sem varð nú heimili okkar beggja í tvö dýrleg ár. Þó ég muni það ekki núna þá reikna ég fatlega með því að mamma hafi eitthvað sagt við púkann sinn er hún sá hann einsog einhvern sjóræningja ofan á kommóðu sem 74 ára maður, sem þótti nú alveg hundgamalt í þá daga, rölti með inní húsið án þess svo mikið sem blása úr nös. Enda nösin full af fersku neftóbaki. En er það ekki soldið svona maður getur líka stjórnað því hvað maður man, allavega stundum.
Lási flutti í minnsta herbergið í húsinu. Þar kom hann búslóðinni sinni fyrir. Einni kommóðu. Pabbi hafði komið þar fyrir fyrir borði, kolli og einu ágætu rúmi. Og á þessu rúmi sat ég heilu dagana með vini mínum Lása. Hann hafði meira að segja skrautað herbergið. Fyrir ofan rúmið hans var mynd af tveimur ungum systkinum að ganga yfir brú og fyrir ofan þau var stór hvítur engill. En á öðrum stað var það sem var mest spennandi. Baromet.
Að morgni dax var ég mættur til Lása og eftir stutt knús gekk hann að borðinu og náði í litla kollinn. Styllti honum upp fyrir neðan barometið og uppá koll ég fór og bankaði með bendifingri á þennan stórmerkilega kringlótta hlut. Hvað haldiði og aldrei klikkaði það að gyllti vísirinn á apparatinu færðist úr stað. Við vinirnir tókum andvarp um leið. Svo var stutt spennuþrungin þögn, síðan þá hef ég alltaf kunnað að meta þögnina. Loks rýndi Lási á vísinn er hreyfðist og las:
Meget smukt.
Elfar Logi Hannesson.