Jöfnunarsjóður greiðir kostnað vegna Hæstaréttardóms frá 2018

Í nýútkominni ársskýrslu um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga kemur fram að kostnaður ríkisins vegna dóms Hæstaréttar frá 2018, þar sem Grímsnes- og Grafningshreppur fékk dæmdar sem ólögmætar skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs á árunum 2013-16 til hreppsins og varð ríkið að greiða sveitarfélaginu framlögin með vöxtum. Fjögur önnur sveitarfélög voru í sömu stöðu og ákvað ríkið að greiða þeim einnig samkvæmt dómnum.  Ríkissjóður innti af hendi greiðslu vegna dómsins samtals kr. 935.282.407.

Í framhaldinu fengu sveitarfélögin fimm einnig greidd framlög vegna áranna 2017 og 2018 og var fjárhæðin 462.808.359 kr. Samtals kostaði Hæstaréttardómurinn ríkið 1,4 milljarð króna.

Þá segir í ársskýrslunni í umfjöllun um dóminn að samkvæmt lögfræðiáliti verða  „greiðslur ríkisins, vegna dóms eða annarrar ákvörðunar sem snertir framlög úr sjóðnum, af þeirri ástæðu einungis fjármagnaðar af tekjum og eignum sjóðsins í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, en ekki úr ríkissjóði.“

Þetta þýðir að umrædd fjárhæð 1,4 milljarðar króna skerða framlög til annarra sveitarfélaga.

Alþingi brást við Hæstarréttardómnum með því að breyta lögum og tryggja þannig framveigis þá dreifingu fjármagns milli sveitarfélaganna sem til stóð.

Ákveðið var með reglugerð 2012 að skerða framlög úr Jöfnunarsjóðnum til sveitarfélaga  sem höfðu óvenju háar tekjur af einstökum tekjustofnum, eins og fasteignaskatti, og það leiddi til þess að tekjur þeirra voru 50% umfram meðaltekjur annarra sveitarfélaga í sama viðmiðunarflokki.  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þessi skerðing hefði þurft að styðjast við lagaákvæði og að ekki hafi verið nægilegt að ákveða hana í reglugerð eingöngu.

Af þessu skýringum í ársskýrslunni er ljóst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun verða að greiða kröfu Reykjavíkurborgar upp á 8,7 milljarða króna um framlög úr sjóðnum fari svo að dómstólar fallist á kröfuna. Það mun leiða til þess að önnur sveitarfélög munu þurfa í raun að greiða kröfuna.

DEILA