Kæri lesandi, skipulagsmál er forsenda þess að bæjarfélög vaxi og dafni, því er það virkilega
sorglegt að sjá á eftir fólki úr bæjarfélaginu í nærliggjandi bæjarfélög því að það fær ekki
húsnæði sem hentar því hér í bæ. Ísafjarðarbær hefur staðið sig virkilega illa við það að
bjóða upp á einhverja valkosti fyrir þann stóra hóp af fólki sem er að koma úr stórum
húseignum og vill koma sér í minni eignir, og þessi hópur fer bara stækkandi.
Greinarhöfundur er hér að tala um lóðir hér á eyrinni sem hægt er byggja hentugt húsnæði
fyrir þennan hóp, góðar tveggja til þriggja herbergja íbúðir með geymslu, bílageymslu og
lyftu á viðráðanlegu verði. Víða á landinu er einmitt verið reisa íbúðir sem henta þessum hóp vel, hægt er að nefna t.d. Bjarg íbúðafélag sem er félag rekið án hagnaðarmarkmiða að norrænni fyrirmynd. Reynt er að byggja þessar íbúðir þar sem öll þjónusta er í göngufæri.
Því miður hafa skipulagsyfirvöldum Ísafjarðarbæjar ekki tekist að koma með neina valkosti í þessum efnum. Ef litið er á söluskrá fasteignasölu hér í bæ er aðeins ein íbúð til sölu sem
uppfyllir flesta þessa kosti sem þessi hópur er að sækjast eftir, allt nema verð. En ef þú gætir klofið það að kaupa umrædda íbúð er hún ekki laus fyrr en 1. ágúst 2022.
Því má ekki ræða um þéttingu byggðar hér á eyrinni þar sem skiplagsyfirvöldum hefur tekist að eyðileggja að marga mati, eitt besta byggingarland fyrir íbúðabyggð sem er Suðurtanginn.
Svæði eins og t.d. sjávarmegin við Fjarðarstræti, við Landsbankaplanið, fyrir framan
„Málarablokkina“ og fleiri staði mætti nefna. Margt fólk vill vera sem næst eyrinni eins og
eftirspurn um þær lausu lóðir á öðrum stöðum sýna, hefur nánast engin eftirspurn verið
síðustu ár.
En skipulagsyfirvöld hafa lítinn áhuga á þessum málaflokki og ekki er það betra hjá Skipulagsog mannvirkjanefnd. Talandi um þá nefnd, það er ótrúlegur skrípaleikur sem þessi blessaða nefnd bauð upp á sl. miðvikudag en þá leggur Skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að úthluta umsækjanda lóð nr. 7 í Dagverðardal, þetta er ótrúlegur gjörningur.
Nefndarmönnum í Skipulags- og mannvirkjanefnd ætti að vera það fullljóst að það hefur
verið mikill áhugi hjá fólki að reisa sér heilárs frístundahús og á þessum stað og fjöldi fólks
sótt um lóðir í Dagverðardal á síðustu árum jafnvel áratugum en hefur ekki haft árangur sem erfiði, það hefur alltaf verið sama svarið, því miður engar lóðir lausar. Það ætti að vera
skipulagsfulltrúa létt verk að taka saman þau erindi formleg sem óformleg um lóðir í
Dagverðardal og leggja það fram hjá Skipulags- og mannvirkjanefnd. Skipulagsfulltrúi hefur
jafnvel gengið svo langt að hafna því að taka við umsókn um umrædda lóð á þeim forsendum að hún sé ekki laus til úthlutunar.
Hér virðist Skipulags- og mannvirkjanefnd vera að horfa á stjórnsýslulög nr. 37 frá 1997 þar sem m.a. er fjallað um jafnræðisregluna, en það skítur mjög skökku við að þessi nefnd sé að horfa á þessi lög þar sem greinarhöfundur hefur ítrekað bent þáverandi formanni Skipulagsog mannvirkjanefndar, nefndarmanni Skipulags- og mannvirkjanefndar og varaformanni bæjarráðs á brot Ísafjarðarbæjar á nákvæmlega sömu lögum varðandi það „skipulagsslys“ sem viðgengst hér á Eyrartúni, þar voru öll hugsanleg lög brotin og þar gengu menn sem hafa með skipulagsmál hér í bæ svo langt að segja viljandi ósatt bæði í ræðu og ritum, jafnvel við lögreglustjórann á Vestfjörðum eins og frægt var.
En það er greinilega ekki sama jón eða séra jón, hvers vegna auglýsa bæjaryfirvöld ekki lóðir sem þessa til umsóknar og gæta að þessari umræddu jafnræðisreglu, að allir sitji við sama borð ? Skoða mætti líka að bjóða þessar lóðir hreinlega til sölu í útboði og hæstbjóðandi fengi lóðina og bæjarfélagið tekjur af því.
Greinilegur áhugi er hjá mörgum á því að koma sér upp heilsárs frístundahúsi hér í
Skutulsfirði og hefur verið í mörg ár en það hefur ekki mætt neinum skilningi hjá
bæjaryfirvöldum, hægt er t.d. að benda á fyrirspurn um svæði undir frístundahúsabyggð á
Dagverðardal frá 2017. Ómögulegt er að skilja hvers vegna er ekki hægt að skipuleggja
frístundabyggð á holtinu milli Dagverðardals og Tungudals, breyta skipulaginu svo að hægt sé að veita þeim stórhuga einstaklingum sem hafa áhuga á framþróun í skipulagsmálum hér í bæ brautargengi.
Hægt er horfa t.d. til orlofshúsanna í Hálöndum ofan Akureyrar sem er virkilega vel heppnuð framkvæmd, svona verkefni gefa tekjur til samfélagsins í heild, verktaka á byggingartímanum og svo bæjarfélagsins og þjónustuaðila til langs tíma.
En einhvern veginn virðast allar hugmyndir sem koma frá ungu fólki, sem hefur áhuga og vilja á því að berjast fyrir bænum okkar fá litlar undirtektir, ef það er eitthvað sem tengist
skipulagsmálum fær það yfirleitt mjög lítinn hljómgrunn, t.d. kom áhugavert erindi um lóð
fyrir hafnsækna starfsemi til Hafnarstjórnar 2019 en þar eins og oft áður var talað fyrir
daufum eyrum.
Fyrir okkur leikmenn lítur þetta virkilega illa út og ekki er lyktin betri. Virðulega bæjarstjórn
og nefndarmenn á vegum Ísafjarðarbæjar, sýnið okkur bæjarbúum og öðrum
þá lágmarks virðingu að vanda til verka. Sagan hefur sýnt það í gegnum aldanna rás að þeir sem skara eld að sinni eigin köku í krafti stöðu sinnar hafa ekkert í bæjarpólitík að gera.
Ágætu íbúar, við erum í dauðafæri til þess að koma atvinnumálum hér við norðanvert djúp í
samt lag eftir áratuga stöðnun. En til þess að það sé hægt þurfa skipulagsmál að vera í lagi og vera í forgangi. Og fyrir hönd okkar allra sem hafa sótt um lóðir á Dagverðardal í gegnum tíðina, treystum við því að bæjarstjórn vísi þessari umsókn aftur til Skipulags- og
mannvirkjanefndar og að hún verði auglýst til þess að áhugasamir geti sótt um og
þessari jafnræðisreglu verði framfylgt.
Eins og Neró forðum, horfði hann á þegar Róm brann og lék bara á hörpu á meðan, ég get því miður ekki annað séð en bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu að stilla strengi í þessari sömu hörpu með algjöru stefnuleysi og fúski í skipulagsmálum á meðan tækifærin sigla hjá.
Með vinsemd og virðingu
Gylfi Sigurðsson, Ísafirði
áhugamaður um skipulagsmál.