Bolungavíkurkaupstaður hefur tekið upp nýtt ferli við auglýsingu og ráðningar í laus störf hjá bæjarfélaginu og stofnunum þess. Í síðustu viku samþykkti bæjarráð tillögu frá Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra þess efnis.
Sett verður á sérstök ráðningsnefnd. Í henni verða bæjarstjóri, fjármálastjóri og forstöðumaður stofnunar sem auglýsir viðkomandi stöðu. Allar lausar stöður verða teknar til umfjöllunar í ráðningarnefnd áður en þær eru auglýstar. Síðan að lokinni auglýsingu heldur ráðninganefndin aftur formlegan fund og þar kemur fram rökstuðningur fyrir ráðningu í starfið. Fundargerðir ráðningarnefndar verða svo lagðar fram til samþykktar í bæjarráði. Ekki verður heimilt að auglýsa stöður án þess að fundargerð ráðningarnefndar hafi hlotið samþykki bæjarráðs.
Þessi breytta tilhögun hefur þegar tekið gildi.