Veðurstofan hefur sent út bréf til fjögurra sveitarfélaga, þar með talið Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar, og tilkynnt formlega að endurskoða þurfi hættumat undir nokkrum varnargörðum sem reistir hafa verið hér á landi á síðustu árum. Þar á meðal eru leiðigarðar á Flateyri, á Bíldudal (Búðargil) og á Ísafirði (Seljalandshlíð).
Veðurstofan telur réttast að ekki séu að svo komnu máli reistar nýjar byggingar á A-hættusvæðum undir varnargörðum á lóðum ofan núverandi byggðar eða nær varnargörðum en fyrirliggjandi byggð sem teygja byggðina nær hlíðinni eða nær
varnargörðum en nú er. Sér í lagi er ástæða til þess að fara varlega á svæðum sem skilgreind voru hættusvæði C í hættumati fyrir byggingu varnargarða.
Í fyrirliggjandi byggð er nú heimilt skv. reglugerðinni að reisa íbúðarhús með allt að fjórum íbúðum á hættusvæðum A og (sumt) atvinnuhúsnæði á hættusvæðum A og B án sérstakra krafna um styrkingu.
Til athugunar er að þessi heimild nái ekki til efstu lóða á svæðum sem varin hafa verið með
varnarvirkjum og voru skilgreind sem C-svæði áður en varnarvirkin voru reist. Jafnframt yrðu ákveðin svæði undir varnarvirkjum sérstaklega afmörkuð og tilgreint að þar sé þétting byggðar óæskileg.