Úskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál gerir athugasemdir við framgöngu Skipulagsstofnunar í Teigskógsmálinu. Kemur fram í úrskurðinum 1. október að Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að segja í áliti sínu á skýrslu um mat á umhverfisáhrifum (dags. 28.3. 2017) af vegagerð í Gufudalssveit að ekki hafi verið sýnt fram á að brýna nauðsyn beri þess að leggja veginn samkvæmt leið Þ-H.
Í náttúruverndarlögum er áskilið í 61. gr. laganna að því aðeins megi raska svæði sem skilgreint er sem vistfræðilega mikilvægir birkiskógar, að brýna nauðsyn beri til þess. Skipulagsstofnun skilgreindi Teigskóg undir þetta verndarákvæði laganna og segir í áliti sín að þar sem allar fimm veglínurnar sem teknar voru til umhverfismats uppfylltu umferðaröryggiskröfur væri ekki sýnt fram á „brýna nauðsyn á að leggja veginn samkvæmt leið Þ-H sem hefði í för með sér mest rask á þessu verndaða vistkerfi samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.“
Samkvæmt þessu áliti Skipulagsstofnunar var það því óheimilt og ólöglegt að fara Þ-H leiðina þar sem skilyrðið um brýna nauðsyn væri ekki uppfyllt.
Ekki hlutverk Skipulagsstofnunar
Úrskurðarnefndin hafnar þessu algerlega í úrskurði sínum. Nefndin segir að það sé ekki hlutverk Skipulagsstofnunar sé „að leggja mat á það samkvæmt náttúruverndarlögum hvort nefnt skilyrði um brýna nauðsyn sé uppfyllt hverju sinni. Það hlutverk er á verksviði leyfisveitanda, að fengnum lögboðnum umsögnum“
Með öðrum orðum það er hlutverk sveitarstjórnar sem leyfisveitanda að meta það hvort skilyrðið um brýna nauðsyn sé uppfyllt og „verður að eftirláta honum nokkurt svigrúm til þess.“
Af þessu leiðir, samkvæmt lagaskilningi úrskurðarnefndarinnar, að sveitarstjórnin hefur það í sinni hendi að meta saman ólíka þætti málsins, umhverfis-, kostnaðar- og samfélagslega þætti en er ekki bundin af því velja þann kost einan sem minnst umhverfisrask hefur í för með sér eins Skipulagsstofnun vildi.
Þá vekur athygli að í úrskurði nefndarinnar segir að það sé ljóst að markmið laganna sé ekki „að banna framkvæmdir sem hafa í för með sér umhverfisáhrif heldur að upplýst sé um þau og reynt sé eftir megni að draga úr þeim.“