Þingeyri: orkuskortur lokar íþróttamiðstöðinni

Íþróttamiðstöðin Þingeyri. Mynd: isafjarðarbær.

Bæði sundlauginni og íþróttahúsinu á Þingeyri var lokað á þriðjudaginn vegna orkuskorts og verður svo fram á laugardag.

Tinna Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að skýringin sé sú að Orkubúið sé að skipta út háspennurofum í aðveitustöð á Skeiði í Dýrafirði og tengja nýjan jarðstreng sem kemur í gegnum göngin frá Mjólká. „Þetta veldur því að línur í firðinum hafa verið, og verða næstu daga, teknar úr rekstri ein af annarri í nokkra tíma í senn. Þar af leiðandi er ekki næg orka til að geta haldið íþróttamiðstöðinni opinni.“

„Eftir þessar aðgerðir verður Dýrafjörður tengdur frá tveimur áttum sem, samkvæmt OV, eykur raforkuöryggið til muna“  segir Tinna.

 

DEILA