Rjúpnaveiðar: Veiðistofn rjúpu er nú einn sá minnsti síðan mælingar hófust

Rjúpur. Mynd: Hugi Ólafsson.

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. – 30. nóvember í ár sem er  það sama og á síðasta ári.  Heimilt verður að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en veiðibann er á miðvikudögum og fimmtudögum. Ítrekað er að sölubann á rjúpum er áfram í gildi og eru veiðimenn hvattir til hófsemi í veiðum.

Veiðistofn rjúpu er nú einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995 og aðeins einu sinni áður, 2002, hefur veiðistofninn verið metinn viðlíka lítill. Veiðiþol stofnsins er metið um 25.000 rjúpur, sem er um 35% af metnu veiðiþoli í fyrra.

Sölubann er á rjúpum en í því felst að óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Umhverfisstofnun er falið að fylgja sölubanninu eftir.

Umhverfisstofnun telur að veiðst hafi um 60.000 rjúpur í fyrra og 57.000 rjúpur í hittifyrra. Veiðiþolið var metið sem um 70.000 fuglar hvort ár. Telur stofnunin að veiðarnar á þessu ári geti orðið 33.000 fuglar með hliðsjón af veiðitölum fyrri ára.

Ekki er lagt til að breyta fyrirkomulagi veiðanna þrátt fyrir lítinn veiðistofn en veiðmenn eru hvattir til hófsamra veiða.

DEILA