Reykhólar: bókað gegn Þ-H leið

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps í síðustu viku var kynntur úrskurður Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál varðandi vegagerð í Gufudalssveit.

Tveir sveitarstjórnarmenn, báðir fyrrverandi oddvitar,  bókuðu vonbrigði sín með úrskurðinn og telja hann rangan. Í annarri bókuninni segir að byggðin á Reykhólum hafi veikst og í hinni er gert ráð fyrir að málið fari fyrir dómstóla.

Meirihluti sveitarstjórnar, þrír hreppsnefndarmenn,  samþykkti fyrr á árinu að velja Þ-H leið, sem liggur að hluta í jaðri Teigsskógs. Karl og Ingimar voru í minnihluta og vildu svokallaða R leið.

Bókun Karls Kristjánssonar:

„Vegagerðin með stjórnvöld á bak við sig fer sínu fram sama hvað hver segir, sama hvað
líður umhverfismati framkvæmdarinnar, verndarákvæðum náttúruverndarlaga og
alþjóðlegum sáttmálum. Fordómar og virðingarleysi gagnvart umhverfismálum og
náttúruvernd eru ríkjandi viðhorf, lagaumhverfið og leikreglurnar eru mótuð af þeim
hugsunarhætti. Fordómar og virðingarleysi eru líka viðhorfin gagnvart minni samfélögum
og litlum byggðakjörnum í dreifbýlinu eins og Reykhólaþorpi. Þar fækkar nú fólki hratt og
byggðin veikist, börnum í grunnskólanum fækkaði úr 44 í 35 á síðasta ári og versluninni
og veitingastaðnum var lokað núna um mánaðarmótin. Framtíðarhagsmunir veikrar
byggðar við innanverðan Breiðafjörð vega ekki þungt í þessu máli.
Sveitarfélagið var ekki beitt „ólögmætum þvingunum“ af hálfu Vegagerðarinnar að mati
Úrskurðarnefndarinnar þó það hafi bara átt val um eina leið, Teigsskógsleiðina. Hlutverk
sveitarstjórnar er alveg skýrt að mati Uua að henni beri að gera það sem fyrir hana er
lagt af hálfu raunverulegra valdhafa. Henni leyfist þó enn að mati úrskurðaraðila að tjá
óánægju sína með að vera stillt upp við vegg af ríkisvaldinu og hafa enga raunverulega
stöðu til að gæta hagsmuna umhverfis og samfélags í sveitarfélaginu.“

Bókun Ingimars Ingimarssonar:

„Undirritaður tekur undir bókun KK og lýsir yfir miklum vonbrigðum með úrskurð   Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála (ÚUA) vegna kærumála um Vestfjarðarveg
60. Umhverfisvernd og þorpið á Reykhólum urðu undir í niðurstöðu þessarar
ráðherraskipuðu stjórnsýslunefndar. Hvorki vegagerðin, sveitarstjórnarmenn sem
samþykktu Þ-H leið né ÚUA hafa sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fara Þ-H leið
umfram aðra leiðir. Það er ljóst að stjórnsýslan hefur sagt sitt og nú má gera ráð fyrir því
að málið endi fyrir dómstólum.“

DEILA