Póstmál flutt til Byggðastofnunar

Lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi sem færir póstmál frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Byggðastofnunar.

Með tilfærslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Byggðastofnunar er leitast við að tryggja jafnan rétt landsmanna til alþjónustu póstsins, sem lýst er í lögum um póstþjónustu. Ýmis rök mæla með því að Byggðastofnun taki að sér verkefni póstmála, m.a. við að samhæfa betur byggðasjónarmið og póstmál segir í tilkynningu ráðuneytisins.  „Auk þess að tryggja að áfram verður tryggð hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg póstþjónustu um land allt og til og frá landinu og að jafnræði landsmanna til að njóta alþjónustu verði tryggt.“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Tilgangur frumvarpsins, sem samið var í samvinnu við PFS og Byggðastofnun, er að mæla fyrir um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá PFS til Byggðastofnunar.

Nýjar gjaldtökuheimildir til Byggðastofnunar

Þá er lagt til að gerðar verði tímabærar lagfæringar á lögum um Byggðastofnun er snúa að heimildum til að innheimta tiltekin þjónustugjöld, skýrslugjöf stofnunarinnar og fjárvörslu.

Þar eru sérstaklega tilgreind umsýsla og skjalagerð tengda lánastarfsemi stofnunarinnar, umsýslu vegna aflamarks Byggðastofnunar  og vinna við verkefni á sviði Byggðaáætlunar og alþjóðlegra verkefna sem stofnunni er falið að sinna.

DEILA