N4 á Vestfjörðum: viðtal við Orkubússtjóra

Á norðlensku sjónvarpsstöðinni N4 verður í kvöld kl 20:30 viðtal við Elías Jónatansson, Orkubússtjóra.

Þar kemur fram að Orkubúið er að skoða nokkra virkjunarkosti.

„Ef við ætlum að fá ný atvinnutækifæri inn á svæðið er mjög mikilvægt að hafa tryggt rafmagn. Þegar um er að ræða stórar fjárfestingar er mjög fljótlega litið til rafmagnsmála. Við erum að skoða ýmsa virkjunarkosti og erum með nokkur rannsóknarleyfi fyrir virkjanir,” segir Elías Jónatansson orkubússtjori Orkubús Vestfjarða.

“Við erum að skoða nánast alla Vestfriði og þessar virkanir eru svo að segja af öllum stærðum og gerðum, þó aðallega smávirkjanir frá tveimur til tíu megawött. Eins og staðan er núna er ekki rafmagnsskortur á Vestfjörðum, heldur viljum við tryggja afhendingaröryggið. Við Vestfirðingar viljum vera sjálfum okkur nógir í þessum efnum.”

Einnig verður rætt við Birgi Gunnarsson, bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ í sama þætti.
Birgir segist vera bjartsýnn á framtíðina fyrir vestan og vísar til fiskeldisins.
“Við sjáum fram á mikla uppbyggingu í fiskeldi á Vestfjörðum á komandi árum og hérna eru nokkur öflug þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki. Þannig að ég er tiltölulega bjartsýnn á framtíðina í atvinnumálum.”
Það er Karl Eskil Pálsson sem gerði sér ferð vestur og ræddi við þá Elías og Birgi.
DEILA