Halldór Kristjánsson fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði þann 2. október 1910.
Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson bóndi og Bessabe Halldórsdóttir.
Halldór lauk héraðsskólaprófi árið 1930 frá unglingaskóla á Núpi í Dýrafirði. Hann ólst upp á Kirkjubóli og gerðist þar bóndi.
Halldór starfaði sem blaðamaður við Tímann á árunum 1945-1952 en bjó þó áfram á Kirkjubóli.
Á árunum 1938-1945 var Halldór formaður Félags ungra framsóknarmanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sat hann í miðstjórn Framsóknarflokksins frá árinu 1956.
Halldór átti sæti í stjórnarskrárnefnd 1945-1951 og í úthlutunarnefnd listamannalauna árið 1961. Hann gerðist yfirskoðunarmaður ríkisreikninga árið 1971. Hann var skipaður í Hrafnseyrarnefnd árið 1973.
Halldór var varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vestfjörðum og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á árunum 1964-1974.
Halldór var ötull talsmaður gegn áfengi og öðrum vímuefnum. Hann var félagi í Góðtemplarareglunni og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á hennar vegum.
Árið 1973 settist Halldór að í Reykjavík ásamt konu sinni, Rebekku Eiríksdóttur. Þau hjónin ólu upp þrjú fósturbörn, Ósk Elínu Jóhannesdóttur, Sigríði Eyrúnu Guðjónsdóttur og Sævar Björn Gunnarsson.
Halldór lést 26. ágúst árið 2000 og Rebekka lést 28. janúar 1995.
___________________________________________________________
9. ágúst 2003 –
Minnisvarði afhjúpaður um Halldór frá Kirkjubóli
ÞAÐ var hátíðleg stund að Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði laugardaginn 9. ágúst 2003 er minnisvarði um Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli var afhjúpaður.
Um 100 manns komu saman til að heiðra minningu Halldórs í góðu veðri. Þar á meðal var systir Halldórs, Jóhanna Kristjánsdóttir, 95 ára, og mágkona Halldórs, Þuríður Gísladóttir, ekkja Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds. Auk þess voru þarna samankomnir afkomendur Ólafs Þ. Kristjánssonar, skólastjóra og stórtemplars, bróður Halldórs, en 100 ár eru nú liðin frá fæðingu hans.
Viðstaddir voru einnig aðrir aðstandendur Halldórs, fyrrverandi sveitungar hans og fleiri Vestfirðingar og síðan dágóður hópur templara, en það var einmitt stúkan Einingin nr. 14 í Reykjavík sem stóð fyrir því að minnisvarðinn var reistur að Kirkjubóli. Þannig vildu félagar Einingarinnar minnast að verðleikum eins síns bezta félaga og um leið eins ötulasta talsmanns er bindindishreyfingin á Íslandi hefur átt.
Formaður undirbúningsnefndar Einingarinnar, Sigrún Sturludóttir, setti samkomuna með ávarpi og stjórnaði henni. Einingarfélaginn Victor Ágústsson afhjúpaði svo minnisvarðann.
Lesið var úr verkum Halldórs, en hann var skáld gott og skarpur penni og voru það Einingarkonurnar Ásgerður Ingimarsdóttir og Sigrún Gissurardóttir er það gjörðu. Félagar Halldórs, þeir Gunnar Þorláksson og Helgi Seljan, fluttu ávörp, félagar úr karlakórnum Erni sungu tvö lög og einnig voru sungin lög við ljóð Halldórs.
Það var svo Ásthildur Ólafsdóttir, bróðurdóttir Halldórs, sem flutti ávarp og þakkir frá ættingjunum fyrir þetta framtak.
Minnisvarðinn er fallegur vestfirzkur steinn með áletraðri plötu þar sem m.a. eru þessar ljóðlínur úr kvæði Halldórs sem lýsandi eru fyrir vökult viðhorf hans og baráttu alla tíð:
Verjum land og verndum börn
frá vímu og neyð.
Skráð af Menningar-Bakki.