Litið yfir farinn veg.
Það var langþráður áfangi þegar Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 eftir áralanga baráttu Vestfirðinga. Fyrsti skólameistarinn, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur í endurminningum lýst því hvernig hann byrjaði með eina skúringafötu – jú, og símtólið sem hann talaði óspart í til þess að laða nemendur og kennara að skólanum. Honum varð vel ágengt. Skólinn var settur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði í byrjun október það sama haust og fjórum árum síðar útskrifuðust þaðan 30 nýstúdentar.
Fyrstu árin
Menntaskólinn á Ísafirði á vísan stað í hjarta greinarhöfundar sem hefur bæði verið nemandi við skólann og skólameistari hans.
Á menntaskólaárum mínum varð ég aðnjótandi tveggja meistara skólans, því að Bryndís Schram leysti eiginmann sinn af skólaárið 1976–77. Kennslan fór fram í gamla barnaskólahúsinu þar sem næddi inn um hverja glufu á köldum vetrarmorgnum og ekki sást út um rúðurnar fyrir frostrósum. Syfjuð og lúin hírðumst við í lopapeysum undir beygingarreglum þýskunnar og leyndardómum eðlisfræðinnar. Í löngufrímínútum léttum við okkur lífið með kókómjólk og heitum súkkulaðisnúð úr Gamla-bakríi.
Við stjórnvölinn voru áhugasamir og lífsglaðir skólastjórnendur og einvala kennaralið – tilvonandi fjölmiðlahaukar, rithöfundar, pólitíkusar og fræðimenn sem áttu eftir að láta að sér kveða á vettvangi þjóðlífsins.
Þetta voru góð ár.
Fyrir Vestfirði, ekki síst Ísafjörð, var skólinn happafengur. Ungmenni gátu nú sótt sér framhaldsskólamenntun í heimabyggð en þurftu ekki lengur að vera fjarvistum frá fjölskyldum og ástvinum svo mánuðum skipti. Menntaskólinn laðaði að ungt og fjölhæft fólk víðsvegar að og það setti svip sinn á bæjarbraginn. Bryndís var menningarsprauta. Hún setti upp leikhópa, stóð fyrir myndlistarsýningum og upplestrum, og stofnaði kvöldskóla sem var vísir að Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem seinna varð.
Umbrotatímar
Mikið vatn hefur síðan til sjávar runnið og umskipti orðið í skólastarfi. Árið 1990 runnu Iðnskóli Ísafjarðar (stofnaður 1905) og húsmæðraskólinn Ósk (stofnaður 1912) undir hatt Menntaskólans á Ísafirði. Fimm árum síðar varð hann að Framhaldsskóla Vestfjarða, en endurheimti svo sitt upprunalega heiti aldamótaárið 2000.
Þegar ég kom til starfa sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, haustið 2001, var skólinn til húsa á Torfnesi þar sem einnig hafði verið byggt verknámshús. Verulegar breytingar höfðu orðið á skipulagi og námsframboði og allt stefndi það fram á við. Gengi skólans var þó hallandi um þær mundir. Samfelld og viðvarandi nemendafækkun hafði verið árin á undan, brottfall úr námi verulegt og erfitt að fá réttindakennara til starfa. Haustið sem ég hóf störf var innan við þriðjungur kennaraliðsins með kennsluréttindi.
Verkefnin voru því ærin sem biðu nýs skólameistara og nú var hafist handa. Að ári liðnu var komið að skólanum samhent stjórnendateymi sem ásamt skólameistara lét hendur standa fram úr ermum við að gera viðeigandi úrbætur, stemma stigu við brottfallinu og rétta af hallareksturinn.
Fimm árum síðar höfðu öll markmið náðst.
Framsækni og gróska
Í skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ um starfsumhverfi Menntaskólans á Ísafirði umrætt tímabil kemur fram að á þessum fáu árum skipaði skólinn sér í hóp framsæknustu og best reknu framhaldsskóla landsins. Nemendum fjölgaði um þriðjung, brottfall minnkaði um meira en helming og hlutfall réttindakennara snerist við, fór úr 30% í 70%. Komið var upp fullburða húsasmíðadeild ásamt nýrri verkmenntaaðstöðu fyrir byggingagreinar. Brunavarnir voru endurbættar sem og aðgengi fyrir fatlaða og heimavistin endurnýjuð. Gerðar voru úrbætur í kennslustarfi og námsframboði. Sett var á laggirnar kvöldnám fyri fólk með erlendan bakgrunn, stofnað foreldrafélag við skólann og efnt til árlegra skólaþinga. Er þó ekki allt upp talið af þeirri grósku sem í gangi var. Árið 2005 var efnt til mikillar hátíðar í tilefni af 100 ára afmæli iðnnáms á Ísafirði. Forseti Íslands heiðraði skólann af því tilefni.
Þetta voru spennandi tímar – gefandi en krefjandi. Afraksturinn var umtalsverður.
Áskoranir enn á ný
En allt er breytingum undirorpið og enginn árangur er sjálfgefinn. Samkvæmt nýlegri úttekt á starfi Menntaskólans á Ísafirði er skólinn nú enn á ný að kljást við gamla drauga. Hröð fækkun nemenda í fullu námi er áhyggjuefni og erfiðlega gengur að laða réttindakennara að skólanum, eins og fram kemur í úttektinni sem gerð var 2015.
Hvernig mál hafa þróast síðan getur greinarhöfundur ekki dæmt um. Hitt veit ég, að með samhentu átaki og góðum vilja er allt hægt. Það sannaðist við stofnun skólans og á velmektarárum hans. Menntaskólinn á Ísafirði stendur á 50 ára gömlum merg. Hann hefur alla burði til að vera sá samfélagsstólpi sem honum var ætlað að vera. Vestfirðingar eiga mikið undir því að þessi veigamikla menntastofnun þeirra haldi velli og sé fær um að næra samfélag sitt með menntun ungmenna og sem mikilvægur vinnustaður.
Menntaskólanum á Ísafirði óska ég giftu og heilla í hans þýðingarmikla hlutverki um ókomin ár.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Höfundur er fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Ísafirði