Ísafjarðarbær: Fjölbreytt námsval á unglingastigi

Grunnskólinn á Ísafirði.

Grunnskólinn á Ísafirði býður í vetur, eins og og undanfarin ár, upp á fjölbreytt námsval á unglingastigi.

Valgreinar eru hluti af skyldunámi. Í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar allt að fimmtungi námstímans en skólar geta skipulagt mismunandi hlutfall valgreina eftir árgöngum og skal slíkt koma fram í árlegri starfsáætlun. Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa

Þetta árið er það hárgreiðsla, dans, FabLab, boltaval, aðstoð í Dægradvöl, Drekar og dýflissur, fatasaumur, fornám ökunáms, heimilisfræði, ítalska, líkamsrækt og þjálfun, leiklist, ljósmyndun, Makey makey, málm og silfursmíði, myndmennt, smíði og hönnun, prjón og hönnun, námsaðstoð, skapandi stærðfræði, skák, skólahreysti, slökun og hugleiðsla, sund, tæknilegó, tækniráð, menningarlæsi og sköpun, næringarfræði og þýska.

Samtals er um þrjátíu greinar að ræða

Auk þess býðst nemendum að stunda tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Ísafirði og Listaskóla Rögnvaldar og stunda íþróttir hjá HSV og telst það til valgreina.

Nemendur unglingastigs eru 103 á Ísafirði, en auk þeirra koma 17 nemendur frá Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskólanum á Suðureyri í valgreinarnarnar á mánudögum og fimmtudögum.

DEILA