Endurheimt votlendis á Kirkjubóli í Korpudal við Önundarfjörð lýkur í dag

Frá framkvæmdunum á Kirkjubóli í Önundarfirði. Mynd: Votlendissjóður.

Endurheimt votlendis í landi Kirkjubóls í Korpudal við Önundarfjörð lýkur í dag segir í fréttatilkynningu frá Votlendissjóði. Svæðið sem hefur verið endurheimt er 24 hektarar að stærð. Með framkvæmdinni er stöðvuð árleg losun uppá 480 tonn af koltvísýringi. Það er sambærileg losun og kemur frá 240 nýlegum fólksbílum á einu ári. Uppsöfnuð endurheimt þessa svæðis til átta ára er 3.840 tonn samkvæmt tölum Votlendissjóðs.

Vinnan við endurheimtina tók rétt um viku og lauk fyrr en áætlað var en verklok höfðu verið fyrirhuguð 15. október nk. Það var verktakafyrirtækið Þotan sem sá um framkvæmdina.

Var framræst í óþökk eigenda

Fyrir 50 árum síðan var jörðin á Kirkjubóli framræst af ríkinu í óþökk eigenda hennar sem á tímabili misstu yfirráðarétt yfir henni. Þannig borgaði ríkið fyrir framræsingu á jörð sem var aldrei nýtt. Nú um hálfri öld síðan er það einkarekinn sjóður sem greiðir fyrir endurheimt jarðarinnar.

Samkvæmt Loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna (IPCC) losar einn hektari af framræstu landi 19.5 tonn af gróðurhúsalofttegundum á ári segir í fréttatilkynningunni. Mælingar Landgræðslunnar síðustu þrjú ár staðfesta það og meira til. Í einhverjum tilfellum mælinga í fyrra sumar, sem var einstaklega þurrt og hlýtt, fóru mælingar langt yfir 100 tonn á hektarann.

 

DEILA