Citroën snjóbíll

Gripur mánaðarins í október hjá Þjóðminjasafni Íslands er snjóbíll af gerðinni Citroën-Kegresse, árgerð 1927-1930.

Bíllinn var smíðaður í Frakklandi, en yfirbyggingin er íslensk.

Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður skráði sögu bílsins í skrár safnsins, en frásögn hans fylgir hér á eftir:

„Rússneskur hugvitsmaður hóf árið 1906 að gera tilraunir með faratæki, sem gætu farið í snjó jafnt sem á vegi, og lauk hann tilraun sinni árið 1916. Hann flýði til Frakklands í rússnesku byltingunni og varð uppfinning hans síðan til þess að smíðaðir voru „skriðdrekar” á beltum. Árið 1921 var snjóbíllinn smíðaður eftir þeirri uppfinningu og var hann reyndur í snjó og einnig á sandflákum Sahara-eyðimerkurinnar.
Bílarnir voru á beltum að aftan, en framhjólin gengu gegnum skíði, og sleði var undir bílnum að framan. Á bílum sem notaðir voru á sandauðnum var stór rúlla fremst í stað skíða.
Jónas Jónsson frá Hriflu frétti af þessari uppfinningu og lagði til í grein árið 1926 að fá hingað slíka bíla til að nota að vetrarlagi á fjallvegum „meðan járnbrautarmálið liggur í þagnargildi.” Jónas flutti síðan tillögu á alþingi árið 1927 um að kaupa slíka bifreið til reynslu.
Í árslok voru keyptar þrjár til viðbótar, ein af þeim flutningabíll. Voru snjóbílarnir notaðir til fólksflutninga yfir Hellisheiði, Holtavörðuheiði og á Fagradal. Tóku fólksbílarnir 9 farþega en flutningabíllinn 1,5 smálestir af vörum og var hann einkum notaður til mjólkurflutninga yfir Hellisheiði. Bílarnir komu húslausir, kostuðu þannig um 17 þúsund krónur en yfirbyggðir um 20 þúsund. Citroën vélarnar reyndust ekki nógu sterkar og því voru brátt settar í þá Ford-vélar og gírkassi.
Vegagerð ríkisins notaði bílana fram undir 1950, en síðan voru þeir seldir. Þessi bíll mun vera sá, sem lengst var á Holtavörðuheiði, hafði þá skráningarnúmerið M-69. Hann var síðast norður í Köldukinn í Þingeyjarsýslu en Þjóðminjasafnið fékk bílinn árið 1979.”

Bílinn má í dag berja augum á Samgöngusafninu á Skógum, en þar eru til sýnis bílar frá upphafi bílaaldar á Íslandi.

DEILA