Arfaostur og soðinn selur

Í sumar stóð Vestfjarðastofa fyrir könnun sem ætlað var að varpa ljósi á hvað fólk teldi vera vestfirskt þegar kemur að matvælum og matarhefðum.
Könnunin var sett fram á ensku, pólsku og íslensku.
Í lok könnunarinnar bauðst þáttakendum að skrifa sögu og/eða minningu um vestfirskan mat og hefðir.

Þegar spurt var hvað það væri sem væri einkennandi fyrir Vestfirði svöruðu því flestir til að það væri fiskur. Því næst voru það hveitikökurnar og harðfiskurinn sem fólk nefndi.

Þegar spurt var um jurtir eða plöntur voru það aðalbláber, hvönn og blóðberg sem oftast voru nefnd. Þáttakendur nefndu sjávarilm sem einkennandi fyrir svæðið ásamt m.a. lykt af lyngi og birki.

Við fengum skemmtilegar sögur af minningum og hefðum vestfirðinga. Margir áttu hlýjar minningar um heimareykt hangikjöt á jólum, harðfisk með miklu smjöri, hveitikökur hjá ömmu, skötustöppu og svartfuglsegg.

Einnig fengum við margar áhugaverðar sögur af matarhefðum. Meðal þess sem var nefnt var steiktur silungur með sykri, selur í karrý með hrísgrjónum, soðinn selur með mörfloti og arfaostur unninn úr haugarfa og mjólkurafgöngum

Þegar spurt var að því hvernig matur yrði einkennandi fyrir vestfirði næstu 20 árin vonuðust margir til þess að vestfirðingar væru farinir að rækta meira grænmeti og nýta meira úr nærumhverfi, einnig kom fram að erlend áhrif yrðu áberandi en margir töldu að fiskurinn myndi halda sínu. Einn vildi meina að vestfirðingar væru svo þrjóskir að það myndi ekkert breytast.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar

DEILA