Þjóðlendurkröfur í Skutulsfirði

Í kröfulýsingu ríkisins um Ísafjarðarsýslur sem lögð hefur verið fyrir Óbyggðanefnd til úrskurðar eru kröfurnar skýrðar.

Þar segir að af hálfu íslenska ríkisins er byggt á því að þau svæði sem teljist landsvæði
utan eignarlanda í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 58/1998 séu það á grundvelli  skilgreiningar á  þjóðlendumörkum og heimildum um landnám, jarðir
og jarðamörk, ritaðar heimildir, landfræðilegar aðstæður, og önnur atriði sem eru nánar tilgreind.

Fjallsbrún

þegar vísað er í fjallsbrún eða fjallsbrúnir í eftirfarandi kröfulýsingunum er átt við frambrún fjalls þar sem skörp skil eru oft í hæðarlínum s.s. frambrún kletta eða önnur skýr skil, nema annað sé tekið fram. Í slíkum tilvikum eru landfræðilegar aðstæður oft með þeim hætti að innan fjallsbrúnar/fjallsbrúna, þ.e. ofan á fjalli, liggur tiltölulega flatlent svæði eða skýrt afmarkað. Þegar landamerkjum er lýst í fjallsbrún, í fjall eða á fjall er almennt litið svo á í kröfugerðinni að merki jarða séu dregin í fjallsbrúnir, eins og þeim er lýst hér að framan, milli slíkra merkja. Sé merkjum ekki lýst lengra, séu landamerkjalýsingar óskýrar, séu landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að svæði séu t.d. lítt aðgengileg, lítt gróin, í
töluverðri hæð er víða gerð krafa um að slíkt land, ofan fjallsbrúna, verði lýst þjóðlenda.

Hæðarlínur
Í nokkrum kröfulýsingum er þjóðlendukrafa afmörkuð með hæðarlínu. Er það gert þegar
fyrir liggur að um jörð er að ræða en landamerkjalýsing liggur ekki fyrir, er óljós eða
óskýr og ekki hægt að draga beina línu milli þekktra punkta þar sem það myndi leiða til
niðurstöðu sem ekki væri hægt með sanngirni eða skynsemi að réttlæta og ekki hægt að
finna skýra landfræðilega afmörkun sem hægt var að styðja kröfulínu við.

Hæðarlína var þá jafnan valin með hliðsjón af þekktum punkti eða punktum í merkjalýsingu og reynt að miða við landshætti s.s. gróðurfar og landslag. Í einni kröfulýsingu er gerð krafa í 4 jarðir í heild þrátt fyrir að heimildir liggi fyrir um að um sé að ræða jarðir. Tvær þeirra virðast ekki hafa verið byggðar í mjög langan tíma og önnur þeirra nýtt sem afréttur. Merki annarrar þeirrar jarðar eru að auki óskýr. Það á einnig við um merki hinna tveggja.

Breiðafell og Eyrarfjall verði þjóðlenda

Sem dæmi um kröfur ríkisins má nefna kröfur í Skululsfirði. Þar er gerð krafa um að Breiðafell og Eyrarfjall verði þjóðlenda ofan tilgreindra hæðarmarka:

„Af hálfu íslenska ríkisins er þess krafist að landsvæði sem nefnt er Breiðafell og Eyrarfell,
sem nánar er fjallað um í kafla 4.1.22, sé þjóðlenda innan eftirfarandi þjóðlendukröfulínu:
Upphafspunktur í Bakkarönd í 666m hæð (1). Þaðan eftir fjallsbrún í Bakkahyrnu og
það eftir gili sem liggur þaðan skáhallt niður á fremstu brúnir Gleiðhjalla á Eyrarfjalli
(2). Þaðan eftir brúnum Gleiðhjalla að efstu brún Steiniðjugils (3). Þaðan í
sjónhendingu beint upp í fremstu brún Eyrarfjalls (4). Þaðan eftir fjallsbrúnum
Breiðafells, í Þjófaskarð (5). Þaðan eftir nyrðri fjallsbrúnum Þjófa, Þjófahvilftar,
Breiðafells, Fremstuhvilftar, Miðhvilftar, Eyrarfjalls og Þórólfsgnúps í upphafspunkt.
Við afmörkun þjóðlendukröfulínu er fyrst og fremst stuðst við afmörkun á aðliggjandi
jörðum samkvæmt landamerkjabréfum þeirra, Bakka, Seljalands, Gils og Fremri
Hnífsdals. Ekki liggur fyrir jarðabréf fyrir Eyri. Tekur kröfulýsing mið af lýsingu landamerkja Eyrar í kaupbréfi frá 7. júní 1884. Jafnframt er miðað við landfræðilega legu
kröfusvæðis og staðhætti en land innan þess er í um 700m hæð, gróðursnautt og líklega
lítt nytjað.“

DEILA