Hraðfrystihúsið Gunnvör hf hefur kært til Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála (UUA) deiliskipulag innan Langeyrar í Álftafirði sem staðfest var af Skipulagsstofnun þann 2. júlí 2020. Deiliskipulagið var gert vegan fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju sem Íslenska kalþörungafélagið á Bíldudal áformar að reisa á Langeyrinni.
Samkvæmt kæru vísar kærandi til lögvarinna hagsmuna sem eigandi fasteigna á Langeyri og kveðst reka þar gistiheimili, verbúð og aðra blandaða starfsemi svo sem verksmiðjubyggingu og vörugeymslur.
Kærandi krefst þess að deiliskipulag hafnar- og iðnaðarasvæðis inn af Langeyri í Súðavík verði fellt úr gildi. Byggir kærandi einkum á því að rangt hafi verið staðið að staðarvali fyrir fyrirhugaða uppbyggingu athafnasvæðis fyrir kalkþörungaverksmiðju. Telur kærandi fyrirhugaða uppbyggingu rýra eignir sínar á svæðinu, hefta notkun þeirra með hávaðamengun og öðru því sem fylgir slíkum rekstri. Kæran sem telur 14 síður tíundar nánar aðdraganda að valkostagreiningu og staðarvali fyrirhugaðrar verksmiðjubyggingar og telur þá greiningu hafa verið á afar veikum grunni líkt.
Samkvæmt kærunni gagnrýnir kærandi og tiltekur að ekki hafi verið litið til annarra kosta og telur Súðavíkurhrepp hafa valið eingöngu þann kost sem hafi verið ódýrastur, en jafnframt þann kost sem hafi mest neikvæð umhverfisáhrif í för með sér, að afstaða landeiganda annarra valkosta hafi ekki verið könnuð og enginn samanburður hafi farið fram á umhverfisáhrifum.
Kemur fram í kærunni að Hraðfyrstihúsið Gunnvör vill frekar skoða annan kost fyrir verksmiðjuna, við jörðina Hlíð sem er um 800 metrum innar í firðinum.
Byggir kærandi einkum á því að ekki hafi verið tekin málefnaleg afstaða til athugasemda kæranda í því ferli sem var að baki staðarvali og deiliskipulagi. Telur kærandi að ekki hafi verið gætt 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr 37/1993, rannsóknarreglu og reglunnar um meðalhóf.