MÆÐGIN Í MYNDATÖKU 2. OKTÓBER 1899

Kristjana Gunnarsdóttir og Hannes Hafstei

Hannes Hafstein með Kristjönu móður sinni í myndatöku hjá Birni Pálssyni ljósmyndara á Ísafirði 2. október 1899.

Nokkrum dögum síðar var Hannes hætt kominn þegar hann sigldi á landhelgisbátnum Ingjaldi út í breska togarann Royalist, sem var að ólöglegum veiðum í íslenskri landhelgi í Dýrafirði.

Hugðist sýslumaður taka enska togarann en svo fór að Bretarnir vörnuðu honum uppgöngu og gripu svo til þess fólskubragðs að sökkva bátnum við skipshliðna með þeim afleiðingum að þrír af þeim fjórum mönnum sem voru með Hannesi í för drukknuðu.
Bretarnir björguðu Hannesi og hinum manninum um borð og þó ekki fyrr en þeir sáu til mannaferða úr landi. Voru mennirnir tveir þá nær dauða en lífi. Þeir voru svo fluttir til lands eftir að togaraskipstjórinn neitaði að sigla með þá til læknis á Þingeyri.

Hannes Hafstein (1861–1922) var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði frá 1896 til 1904 þegar hann var skipaður ráðherra Íslands.
Foreldrar hans voru Katrín Kristjana Gunnarsdóttir (1836–1927) og Pétur Jörgen Havstein (1812–1875) alþingismaður og amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Foreldrar Kristjönu voru prestshjónin í Laufási, séra Gunnar Gunnarsson og Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir.

Kristjana og Pétur eignuðust níu börn og komust sjö til fullorðinsára en aðeins tvö þeirra voru á lífi þegar Kristjana lést. Hún flutti úr Eyjafirði til Reykjavíkur eftir andlát eiginmannsins en bjó einnig um tíma erlendis með dætrum sínum á meðan þær voru þar við nám. Hún fylgdi yngstu dóttur sinni, Elínu, til Stykkishólms þegar hún giftist Lárusi sýslumanni Bjarnasyni og sá um heimilið eftir að Elín lést 1900.
Á efri árum dvaldi hún hins vegar á heimili Hannesar á meðan hans naut við.

Ljósm. Björn Pálsson Ísafirði

Af vef Ljósmyndasafns Ísafjarðar

DEILA