Loftbrú fer vel af stað

Á áttunda hundrað flugleggir hafa verið bókaðir með afsláttarkóða Loftbrúar síðan verkefninu var hleypt af stokkunum 9. september síðastliðinn.
Samtals hefur það sparað íbúum landsbyggðarinnar tæpar fimm milljónir króna.

Loftbrú veitir 40% afslátt til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum án vegasambands.
Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar.
Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum.

Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti.

Á þeirri tæpu viku sem liðin er hafa á áttunda hundrað flugleggir verið bókaðir með afsláttarkóða Loftbrúar, Rúmlega 700 hjá Air Iceland Connect og um 30 hjá Erni. 4.951.981 krónur hafa verið lagðar til frá Loftbrú og því hefur almenningur á landsbyggðinni sparað samsvarandi upphæð.

Meðalverð á fluglegg með afslættinum er um 16.600 krónur.
Algengustu flugleiðirnar sem bókaðar hafa verið eru frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur.

Hægt er að skoða réttindi sín á island.is og hafa 848 gert það.

Ferlið hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig.
Einhverjir tæknilegir hnökrar hafa komið upp sem greitt hefur verið úr.

Umferðarþjónusta Vegagerðarinnar sem sinnir upplýsingagjöf í síma 1777 og gegnum netfangið loftbru@vegagerdin.is hefur svarað á annað hundrað símtölum og tölvupóstum.

DEILA