Það er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemd við viðtal við fullrtrúa Í-listans í bæjarráði á BB í dag.
Eftir því hefur verið kallað að fólk í stjórnmálum reyni að vinna saman. Sem formaður bæjarráðs hef ég lagt mig fram um að reyna að ná fram sameiginlegri sátt í málum sem erindi eiga í bæjarráð og gefið þeim þann tíma sem til þarf í bæjarráði. Tekið þau oft fyrir og reynt að halda bæjarráðsfólki og bæjarfulltrúum upplýstum eftir fremsta megni um gang mála. Allt með það að markmiði að um þau sé sameiginleg sátt við afgreiðslu. Það hefur tekist vel enda er nánast alltaf sátt um þau mál sem afgreidd eru úr bæjarráði.
Þegar kemur að samningum við rekstraraðila um líkamsræktarstöð á svo einnig við. Málið hefur verið lengi í vinnslu og komið ótal sinnum fyrir bæjarráð. Málið var afgreitt þar s.l. mánudag í fullri sátt, að því er virtist með bókun sem allir fulltrúar kvittuðu undir, sem er svohljóðandi: „Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samning milli Ísafjarðarbæjar og Ísófit ehf. um styrk vegna reksturs líkamsræktarmiðstöðvar.“ Það er því sárt og skrítið að sjá haft eftir bæjarráðsmanni Í-listans efasemdir um málið eftir að hafa sjálf samþykkt það.
Í fyrsta lagi verður að gera athugasemd við það að ýjað sé að því að um sé að ræða útboðskylt verk og að verið sé að fara á svig við innkaupastefnu bæjarins. Skv. upplýsingum frá bæjarritara og með hliðsjón af lögum og innkaupareglum bæjarins er þetta verk ekki útboðsskylt og fyrir því hefur verið gerð grein í bæjarráði. Hvers vegna því er haldið fram núna eftir að málið var afgreitt er óskiljanlegt enda engir fyrirvarar vegna þessa við umrædda bókun. Eini tilgangurinn virðist vera að þyrla upp ryki um þetta mál og koma því í pólitískar skotgrafir. Samningur sá er nú liggur fyrir er líka fyllilega sambærilegur við saming sem að Í-listinn gerði við núverandi rekstraraðila Stúdíó Dan, hvað fjárhæðir varðar. Hann er þó gegnsærri en sá samningur en í honum styrkir bærinn félag í sinni eigu um sambærilega fjárhæð og nú er rætt um. Það félag leigir svo reksturinn áfram til rekstraraðila Stúdíó Dan sem á svo að greiða ákveðið hlutfall af tekjum til bæjarins fyrir afnot af tækjum en greiðir í staðinn enga húsalegu. Þ.e. ef ég hef skilið samninginn rétt. Bærinn hefur svo átt að sjá um eitthvað viðhald á húsinu og tók á sig skattkvöð sem myndaðist í umræddu félagi. Þetta fyrirkomulag hefur það í för með sér að fjárhæðir verða óljósar og liggja ekki fyrir með beinum hætti. Sá samningur sem nú liggur fyrir er hins vegar alveg augljós, bærinn kemur að rekstrinum með 420 þ.kr. næstu 3 árin. Sem er sennilega lægri upphæð en bærinn hefur lagt til s.l. ár.
Í viðtalinu er einnig því haldið fram að meirihlutinn hafi haldið því fram að þetta sé ekki útboðsskylt. Meirihlutinn eða fulltrúar hans hafa ekki haldið því fram. Það er bæjarritari sem heldur því fram – lögfræðingur að mennt. Meirihlutinn hefur ekkert um þetta ályktað. Lesi maður fjárhæðir innkaupalaga virðist það hins vegar vera ljóst að verkið sé ekki útboðsskylt skv. lögum.
Í þriðja lagi þá er óskiljanlegt af hverju Í-listinn og umræddur bæjarfulltrúi þarf að koma fram með þessum hætti. Við höfum lagt okkur fram um að vinna þetta mál í sameiningu sem endaði með áðurnefndri bókun bæjarráðs. Ekki er gerður neinn fyrirvari á því við afgreiðslu bæjarráðs. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu af bæjarfulltrúar lýsi athugasemdum sínum áður en mál eru samþykkt en ekki á vefsíðum nokkrum dögum eftir að mál eru afgreidd.
Það er líka vert að hafa í huga að þarna er verið að draga fólk og frábært málefni inn í ömurlegt pólitískt dægurþras. Vissulegar eru hlutir sem hefðu betur mátt fara í þessu ferli. Sérstaklega hefði það mátt taka skemmri tíma og skilgreina hefði mátt betur þær hugmyndir sem við höfðum en þær þróuðust eftir sem tímanum vatt fram og málið var rætt í bæjarráði í fullri sátt að því er virtist. En það er algjör óþarfi að þyrla upp einhverju ryki í kring um þetta góða mál á þessu stigi.
Í hnotskurn liggur þetta mál fyrir þannig að fyrir nokkrum árum var samið við núverandi rekstraraðila Stúdío Dan. Þau fengu styrk frá bænum til að reka sína stöð og gerðu það vel og eiga þakkir skildar. Samningurinn var tímabundinn en var framlendur a.m.k. tvisvar án útboðs en er nú að renna sitt skeið. Farið var í nýtt ferli þar sem að þeim og öðrum var boðið að kynna sínar hugmyndir. Niðurstaðan úr því ferli liggur nú fyrir. Aðrir aðilar voru metnir með bestu hugmyndina og þá er lagt til að samið verði við þá. Bæjarráð og starfsmenn bæjarins hafa verið að fullu upplýstir um framgang málsins og það að því er best var séð unnið í fullri sátt og af heilindum.
Samningur þessi liggur nú fyrir bæjarstjórn til samþykktar og það er bæjarstjórnar að afgreiða hann. Er það von mín að bæjarfulltrúar standi nú saman um þetta með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
Daníel Jakobsson,
formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar