Birt hefur verið opinberlega bréf Þrúðheima ehf til Ísafjarðarbæjar dags 20. ágúst þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðunartöku um rekstur líkamsræktarstöðvar á Ísafirði.
Undanfarna mánuði hafa staðir yfir viðræður milli Ísafjarðarbæjar, Þrúðheima ehf og Ísofit ehf um framtíðafyrirkomulag líkamsræktar í bænum, bæði aðstöðu og rekstri. Þrúðheimar hafa í raun rekið starfsemi Studío Dan í Hafnarstræti 20 og Isofit hefur verið með krossfit á eyrinni.
Á fundi bæjarráðs 24. ágúst var lagður fram til samþykktar samningur Ísafjarðarbæjar við Ísófit ehf. til þriggja ára svo og fyrrgreint bréf Þrúðheima. Bæjarráðið staðfesti ekki samninginn og fól bæjarstjóra að afla frekari gagna.
Í bréfi Þrúðheima er óskað eftir aðgangi að öllum gögnum málsins svo Þrúðheimar standi jafnfætis Ísófit við málmeðferð bæjarins um rekstur líkamsræktar á Ísafirði.
Fram kemur í bréfinu að Ísófit hafi á fyrri stigum málsins fengið að kynna sér gögn sem Þrúðheimar lögðu fram og voru til umfjöllunar á fundi bæjarráðs 29. maí sl. og hafi því staðið betur að vígi við gerð tilboðs til bæjarins.
Þar sem ákveðið hafi verið að leita sammtímalausna voru aðilarnir Þrúðheimar og Ísafit beðin um að skila tillögum um húsakost og aðkomu bæjarins ásamt kostnaðaráætlun vegna standsetningar. Að þeim fengnum var af hálfu bæjarins tilkynnt 22. júlí að unnið væri að því að rekstur líkamsræktar héldi áfram í Hafnarstræti 20 þar sem hinn kosturinn með aðstöðu að Sindragötu 10 væri of dýr. Var jafnfram sagt að útboð færi fram byggt á þessari staðsetningu.
Útboðið hefur svo ekki verið auglýst, samkvæmt því sem fram kemur, en bærinn hefur ákveðið að hafa líkamsræktina að Sindragötu 10 og að semja við Ísófit. Er lýst undrun á því og eins því að ekkert hafi verið rætt við Þrúðheima frá 22. júlí.
Telja bréfritarar að bærinn hafi ekki gætt að ákvæðum fjögurra lagagreina stjórnsýslulaga sem lúta að jafnræði, rannsókn máls, andmælarétt og aðgang að gögnum.
Karen Gísladóttir, einn eiganda Þrúðheima sagði í samtali við Bæjarins besta að þau skildu ekki viðsnúninginn í málinu, séstaklega varðandi það að hafa aðstöðuna í Sindragötu 10 og hefðu ekki fengið neinar skýringar. Þá hefði báðir rekstraraðilar verið á ákveðnum tímapunkti sammála um að standa saman að rekstrinum. Eigandinn að Hafnarstræti 20 hefði verið tilbúinn til samstarfs og hefði að auki haft kaupanda að eigninni sem hafi verið tilbúinn til að gera nauðsynlegar endurbætur á húsinu.