Helgi Sigurjón Ólafsson

Skáklistin stóð með allmiklum blóma á Ísafirði um og upp úr 1960. Hópur karla kom saman til að tefla tvisvar í viku og mörg ungmenni æfðu skák. Að vísu aðeins drengirnir; stúlkur og konur létu ekki sjá sig við skáborðið. Þeir áhugasömustu og þeir sem náð höfðu nokkurri leikni fengu að mæta á æfingar með hinum fullorðnu. Nokkrir fremstu skákmennirnir fóru oft suður um páska til að tefla á Skákþingi Íslands; þeir betri í meistaraflokki en aðrir í lægri flokkum. Ísfirðingar áttu aldrei fulltrúa í besta flokknum sem var landsliðsflokkur og þar sem teflt var um Íslandsmeistaratitilinn. Við sem heima vorum fylgdust spenntir með skákmótunum og þekktum nöfn flestra sterkustu skákmanna þjóðarinnar.

Um páskana 1964 gerðist þó það að við könnuðumst ekki við nafn eins keppandans í landsliðsflokki. Hann hét Helgi Ólafsson og vann meira að segja mótið og varð Íslandsmeistari. Þegar þeir komu heim, sem farið höfðu suður, fengum við að vita aðeins meira um þennan nýja meistara. Þetta væri ungur maður, eða strákur, af Suðurnesjum, sem hefði komið, séð og sigrað mörgum að óvörum. Upp frá þessu mundi ég nafn Helga Ólafssonar og hugsaði stundum um að gaman væri að hitta þennan óvenjulega hæfileikaríka mann.

Af honum frétti ég næst löngu síðar að hann væri fluttur til Hólmavíkur þar sem annar fyrrverandi Íslandsmeistari bjó einnig. Helga hitti ég svo fyrst þegar alþjóðlegt skákmót var haldið á Ísafirði í kringum 1990. Þar var Helga boðin þátttaka, sem hann þáði þrátt fyrir litla æfingu og stóð sig með prýði. Helgi flutti svo í kringum aldamótin til Ísafjarðar og tókust þá strax með okkur góð kynni í kringum skákina.

Ég tók við sem forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða árið 2001 og gegndi því starfi til ársins 2017. Mestan þann tíma átti Helgi sæti í fulltrúaráði miðstöðvarinnar, lengst af sem formaður. Á vettvangi fræðslumálanna áttum við Helgi mikið samstarf og var ómetanlegt að eiga hann að. Helgi var ávallt hvetjandi og lausnamiðaður og átti auðvelt með að ná sáttum um málefni. Þá spillti ekki hve glettinn hann var og átti auðvelt með að sjá hið spaugilega í málunum. Fræðslumiðstöðin fór um allmörg haust í hringferð um Vestfirði til að hitta fólk og kynna starfsemi sína. Með í þeim ferðum voru fulltrúar frá nokkrum aðilum sem störfuðu á fjórðungsvísu svo sem frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Helgi var ávallt þeirra fulltrúi.

Það var athyglisvert hvað hann þekkti marga og margir könnuðust við hann. Merkilegast fannst mér þó hvað hann þekkti marga útlendinga í fiskvinnslunni og öðrum störfum. Í þessum ferðum sá maður hve auðvelt Helgi átti með að ná til fólks og hvað það tók honum vel. Ég held að ekki sé ofsagt að Helgi hafi mokað nýjum félögum inn í Verkalýðsfélagið í þessum ferðum. Ég vil þakka Helga Sigurjóni Ólafssyni fyrir einkar gott samstarf og vináttu. Aðstandendum hans öllum votta ég innilega samúð.

Smári Haraldsson

DEILA