Býflugabóndi, ferðaþjónustufyrirtæki, Samtök lífrænna landbúnaðarsamtaka á Norðurlöndum og loftslagsfræðingur eru meðal þeirra sem tilnefndir eru til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Þemað að þessu sinni er vistfræðilegur fjölbreytileiki lands og sjávar sem er í takt við 14. og 15. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Elva Rakel Jónsdóttur, formaður dómnefndar, segir fleiri tilnefningar hafa borist dómnefndinni í ár en undanfarið. Erfitt hafi verið að fækka tilnefningum niður í eina frá hverju landi þar sem Norðurlöndin séu rík af fólki, fræðimönnum, samtökum og fyrirtækjum sem láti sig vistfræðilega fjölbreytni varða.
Hefð hefur verið fyrir því að tilnefningar til verðlaunanna séu kynntar á Lýsu, rokkhátíð samtalsins, en vegna COVID-19 kórónuveirufaraldursins fór kynningin að þessu sinni fram á netinu.
Tilnefningu hljóta:
Noregur
Dag O. Hessen, prófessor í líffræði við Oslóarháskóla og yfirmaður CBA miðstöðvarinnar, fyrir rannsóknir og miðlun upplýsinga um loftslags- og umhverfismál.
Ísland
Borea Adventures. Sjálfbær ferðaþjónusta sem leggur sitt að mörkum til að vernda refastofninn á Hornströndum.
Færeyjar
Rithöfundurinn Jens-Kjeld Jensen fyrir skrif sín um líffræðilega fjölbreytni Færeyja.
Finnland
YLE herferðin „Björgum býflugunum“.
Danmörk
Lystbækgaard fyrir verndun strandheiðarinnar, landslags sem er í hættu á að hverfa.
Álandseyjar
Býflugnabóndinn Torbjörn Eckerman fyrir starf sitt við að halda Álandseyjabýflugum lausum við varroa sníkjumítilinn.
Svíþjóð
Samtök lífrænna landbúnaðarsamtaka á Norðurlöndum
Verðlaunin verða afhent 27. október.