Hag- og upplýsingasvið Sambands Íslenskra sveitarfélaga hefur nú tekið saman upplýsingar um tekjur sveitarfélaga af staðgreiðslu útsvars á fyrri hluta 2020 og borið saman við sömu mánuði í fyrra.
Þar kemur í ljós talsverður munur er milli landshluta og sveitarfélaga en að meðaltali er hækkun um 0.3% á staðgreiðslutekjum.
- Reykjavíkurborg Lækkun 0,2%
- Höfuðborgarsv. -Reykjvav.borg. Hækkun 1,6%
- Suðurnes Lækkun 2,5%
- Vesturland Lækkun 0,7%
- Vestfirðir Hækkun 1,5%
- Norðurland Vestra Hækkun 2,3%
- Norðurland eystra Hækkun 0,1%
- Austurland Lækkun 0,1%
- Suðurland Hækkun 1,2
Innan hvers landshluta getur verið gríðarlegur munur, til dæmis er 0,4% lækkun hjá Hafnarfjarðarkaupstað en 33,5% hækkun hjá Kjósahreppi.
Af níu sveitarfélögum á Vestfjörðum eru sex þeirra með hækkun skatttekna en þrjú með lækkun. Mest hækka tekjurnar hjá Árneshreppi eða um 6,6%, Súðavíkurhreppi um 4,3% og Bolungarvíkurkaupstaður um 3,2%. Þau sem tapa skatttekjum eru Strandabyggð um 3,1%, Tálknafjarðarhreppur um 2,9% og Kaldrananeshreppur um 0,2%.
Á Vesturlandi er 5,8% lækkun hjá Stykkishólmsbæ en nágranni þeirra í Helgafellssveit hækkar um 21% en hafa ber í huga að lækkun Stykkishólmsbæjar milli ára er rúmar 18 milljónir, en heildartekjur Helgafellssveitar á sama tímabili er rúmar 13 milljónir.
Á Norðurlandi vestra er góður stígandi í staðgreiðslutekjum eða hækkum um 1,6% – 4%, nema í Skagabyggð sem lækkar um 15,5%.
Á Norðurlandi eystra eru þrettán sveitarfélög, aðeins Akureyrarkaupstaður, Norðurþing, Eyjarfjarðarsveit og Grýtubakkahreppur og Svalbarðshreppur sem hafa hækkað milli ára. Athygli vekur að agnarsmáu sveitarfélögin Grýtubakkahreppur og Svalbarðshreppur hækka mest á þessum landsfjórðungi en þau hafa barist hatrammlega gegn þvingaðri sameiningu. Skatttekjur í Tjörneshreppi sem sömuleiðis er afar fámennur lækka um 7,5%. Stærstu sveitarfélögin Akureyrarkaupstaður og Norðurþing hafa bæði hækkað.
Á Austurlandi er staðan afar mismunandi, tekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa lækkað um 4% en tekjur Fljótsdalshrepps hafa hækkað um 19.1%
Á Suðurlandi er staðan sömuleiðis afar mismunandi, stærstu sveitarfélögin Árborg, Vestmannaeyjarbær og Hveragerði hafa aukið tekjur sínar en minnstu sveitarfélögin og þá sérstaklega þau sem byggja afkomu sína á ferðaþjónustu hafa lækkað umtalsvert, Mýrdalshreppur lækkar um 13% milli ára og Skaftárhreppur um 6,1%
Nánari upplýsingar má nálgast á vef Sambands Ísl. sveitarfélaga
bryndis@bb.is