Undirbúningur Sæunnarsunds á Flateyri stendur nú sem hæst og eru undirtektir sjósundsfólks víðs vegar af landinu góðar. Nú þegar eru skráðir til leiks 42 þátttakendur sem er rífleg tvöföldun frá fyrra ári, ekki verður tekið við fleirum en 45 þátttakendum svo nú fer hver að verða síðastur. Sæunnarsund fer fram 29. ágúst þetta árið.
Ívar Kristjánsson öryggisstjóri Sæunnarsunds segir að lögð sé mikil áhersla á öryggi í sundinu, fjárfest hafi verið í sérstökum sjósundkútum sem hver sundmaður hefur um sig miðjan, kútarnir eru merktir og litríkir svo ekki ætti að fara á milli mála hvar hver er á sundinu. Björgunarsveitir á svæðinu hafi verið mjög mikilvægur þáttur í öryggisþætti sundsins sem og þeir sem boðist hafa til að fylgja sundfólkinu á kajak. Hann vill nota tækifærið og auglýsa eftir fleiri kajökum fyrir sundið í ár vegna mikils fjölda þátttakenda.
Þetta er í þriðja sinn sem Sæunnarsundið er haldið, árið 2018 lögðu 11 ofurhugar af stað og allir náðu landi, árið 2019 voru það 19 sem lögðu í‘ann frá Flateyrarodda en tveir þáðu aðstoð frá björgunarsveitum síðustu metrana. Eins og áður sagði eru komnir 42 þetta árið.
Fylgjast má með undirbúningi sundsins og kynningum á þátttakendum á facebooksíðu Sæunnarsunds.
bryndis@bb.is