Nýtt lag: Elsewhere – Salóme Katrín

Annað lagið sem Salóme Katrín sendir á öldur ljósvakans heitir Elsewhere. Merkilegt nokk var það fyrsta lagið sem hún samdi.

Í kynningu segir um lagið:

„Lagið er til jafns harmsöngur og fagnaðar-. Hin ljúfsáru vers miðla sorg og varnarleysi, en þau kallast á við stígandi viðlagið, sem umvefur hlustandann mýkt, hugarró og þakklæti. Í heild má túlka Elsewhere sem kærkomna áminningu um að, þrátt fyrir válega viðburði og slæmar horfur, lifir alltaf innra með manneskjunni hlýr kjarni sem varðveita ber og halda upp á, staður sem býður upp á hugarfró og möguleikann á endursköpun sé hlúð að honum af elju og næmni.“

Elsewhere fylgir eftir fyrstu smáskífu Salóme Katrínar, Don‘t take me so seriously, sem var vel og alvarlega tekið af tónlistarunnendum og fjölmiðlum við útgáfu hennar nú í vor. Lögin munu bæði vera í forgrunni á stuttskífunni WATER, sem mun koma út á 12“ vínyl og stafrænum miðlum á komandi hausti.

Salóme Katrín er Ísfirðingur.  Síðan hún hóf að flytja eigin tónlist fyrir almenning á síðasta ári hefur þessi 24 ára listakona hlotið lof frá aðdáendum tónlistar sem fagfólki í stéttinni,  orðstír hennar fer vaxandi hvar sem hún kemur við, hvort heldur er á sviði öldurhúsa, stofutónleikum, menningarstofnunum eða hátíðum á borð við Aldrei fór ég suður. Önnur opinber útgáfa hennar, lagið Elsewhere, kom á öldur ljósvakans frá og með föstudeginum 28. ágúst, en EP skífan WATER er væntanleg á 12“ vínyl og stafrænum miðlum er líða fer á haustið.

LAGIÐ á Spotify

 

https://open.spotify.com/track/01R0rFKbmwcozFzSDPOMtZ?si=aWms48v3Rli4_5_ELgnPPQ

 

DEILA