Gripur mánaðarins hjá Þjóðminjasafni Íslands er neftóbaksbaukur eða pontur sem voru lang algengustu neftóbaksílátin á Íslandi á fyrri tíð.
Slíkar pontur voru óvíða þekktar nema á Íslandi en þó munu svipaðar gerðir hafa verið til í Noregi sem voru þá yfirleitt úr hreindýrahorni.
Algengast var samt að baukarnir væru gerðir úr nautgripahornum og því fallega sveigðir og fóru vel í vasa. Oftast voru þeir einnig skreyttir silfri þótt slíkir gripir hafi verið sjaldséðir á Íslandi í árdaga neftóbaksnotkunar hérlendis.
Heppilegra þótti þó að hafa ponturnar skreyttar nýsilfri því það er mun slitsterkara en venjulegt silfur því þessir gripir voru í stöðugri notkun.
Sú tóbaksponta sem hér hefur verið valin sem gripur ágústmánaðar er hins vegar gerð úr mjög dökkri rostungstönn sem bendir til að hún hafi legið lengi í jörð.
Til endanna er hún sett nýsilfri og rákaður kúlulagaður tappinn er festur við pontuna með silfurkeðju. Á hliðunum eru áttablaðarósir úr kornsettu víravirki með rauðum glersteini í miðju.
Pontan er óvenju löng eða um 19 sm og því óvíst að hún hafi að jafnaði verið borin í vasa eins og menn tíðkuðu annars yfirleitt.
Upphafsstafirnir JJ eru grafnir á botnlok bauksins sem munu vera upphafsstafir Jóns Jónssonar í Purkey á Breiðafirði en á undan honum átti gripinn Hafliði Eyjólfsson hreppstjóri í Svefneyjum.
Ofan við kenginn sem festir tappakeðjuna við pontuna er stimpill Rögnvaldar Sigmundssonar (1810-1871), gullsmiðs í Fagradal, RS, sem smíðaði gripinn.
Líklegt má telja að pontan hafi verið smíðuð eftir miðja 19. öld en kom til Þjóðminjasafnsins árið 1932.