Hallfríðar Eyjólfsdóttur, eða Halla á Laugabóli eins og hún er betur þekkt, fæddist 11. ágúst 1866 í Múla við Gilsfjörð, Austur-Barðastrandarsýslu.
Vorið 1886 kvaddi Halla æskustöðvarnar við Gilsfjörðinn tæplega tvítug og hélt norður yfir heiði þar sem hún réðst sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð innst í Ísafjarðardjúpi. Fáum árum síðar giftist hún Þórði Jónssyni, f. 5.4. 1858, d. 18.10. 1914, syni hjónanna þar Jóns Halldórssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Halla og Þórður eignuðust fjórtán börn en þrjú þeirra misstu þau úr barnaveiki sumarið 1904.
Þórður og Halla reistu sér fyrst bú á Kirkjubóli í Laugardal 1892 en fimm árum seinna tóku þau við búi foreldra hans á Laugabóli.
Sumarið 1910 var ungur læknir, Sigvaldi Stefánsson, skipaður héraðslæknir í Nauteyrarhéraði. Kom hann vestur þá um sumarið með fjölskyldu sína og settist að á Ármúla, innst í Ísafjarðardjúpi, rétt við Kaldalón. Sigvaldi tók sér síðar nafnið Kaldalóns og varð þjóðþekktur sem tónskáld. Kynni tókust með fjölskyldu Sigvalda og fjölskyldunni á Laugabóli og varð mikil og hlý vinátta þar á milli.
Í erindi Hlyns Þór Magnússonar sagnfræðings um Höllu segir:
„Óhætt er að segja að samband þeirra Höllu og Sigvalda hafi verið einstakt enda leiddi það til sköpunar sönglaga sem teljast verða perlur í íslenskri tónlist. Bæði voru þau óþekktir listamenn þegar leiðir þeirra lágu saman en bæði voru þjóðþekkt er leiðir skildu. Verk þeirra hafa lifað fram á þennan dag, hjartkær íslensku þjóðinni í tímalausri fegurð sinni. Það hlýtur að hafa verið töfrastund þegar örlögin leiddu saman þessar tvær manneskjur í afskekktri sveit norður á hjara veraldar.“
Af sönglögum Sigvalda við ljóð Höllu má nefna Ég lít anda liðna tíð og Svanur minn syngur.
Þórður lést árið 1914 eftir erfið veikindi og Halla sá um búið en árið 1921 giftist hún Gunnari Steini Gunnarssyni frá Hvítanesi í Skötufirði. Þau héldu áfram búskap á Laugabóli til 1935 þegar Sigurður, sonur hennar, tók við.
Halla lést í Reykjavík árið 1937, liðlega sjötug að aldri.
Árið 2008 kom út úrval ljóða Höllu í bók sem nefnist Svanurinn minn syngur. Guðfinna Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði gaf út bókina og í henni er einnig æviágrip um þessa merku konu.