Í gær var rifjað upp að aflaskipstjórinn kunni Ásgeir Guðbjartsson, Ísafirði átti þann dag sem afmælisdag.
Hann var skipstjóri á mörgun skipum og bátum en eftir að hann tók við Guðbjörgu ÍS 47 hétu skip hans því nafni. Það vekur upp spurninguna hvers vegna eða kannski frekar hver var þessi Guðbjörg.
Svarið er að finna meðal annars í samantekt Kjartans Ólafssonar, fyrrv. alþm og ritstjóra frá 1996 um jarðir í Súgandafirði.
Um jörðina Kvíanes er löng frásögn þar sem rakið er nákvæmlega saga ábúenda og eigenda. Sagt er frá hjónunum Páli Guðmundssyni og Rósinkrönzu Guðmundsdóttur sem giftust 1855.
Um þau segir Kjartan:
„Páll Guðmundsson og Rósinkranza kona hans eignuðust sjö börn sem fæddust flest á Kvíanesi. Fjögur þessara barna dóu innan við þriggja ára aldur og Ari sonur þeirra, sem ólst upp sem ómagi á Stað, dó 16 ára gamall árið 1884, þá ómagi á Kvíanesi. Aðeins tvö af þessum systkinum náðu að komast upp, Sveinbjörn, sem varð bóndi í Súgandafirði og bjó síðast á Laugum (sjá hér Laugar), og Guðbjörg sem hér verður minnst á síðar.“
Síðan kemur þessi athyglisverði kafli um Guðbjörgu og samþykkt hreppsnefndar um farbann á hana:
„Sveinbjörn var sem áður sagði annað tveggja barna Páls og Rósinkrönzu sem náðu að komast upp. Hitt barnið var Guðbjörg, fædd 22. október 1863. Hún fylgdi oftast foreldrum sínum á uppvaxtarárunum og var frá 1881 til 1891 á heimili Sveinbjörns bróður síns, í Klúku, á Kvíanesi og í Botni frá 1886. Á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri 13. febrúar 1891, var rætt sérstaklega um Guðbjörgu og unnusta hennar, sem þá var vinnumaður í Botni, og þetta bókað:
Svo var rætt um Ásgeir Guðbjartarson og Guðbjörgu Pálsdóttur og var það álit allra fundarmanna að Guðbjörg færi ekki héðan úr hreppnum fyrr en hún væri gift Ásgeiri Guðbjartarsyni.
Líklegt er að þessi samþykkt um farbann á Guðbjörgu komi nú ýmsum spánskt fyrir sjónir en skýringin er augljós. Þegar samþykktin var gerð gekk Guðbjörg með sitt fyrsta barn, drenginn Guðmund Júni Ásgeirsson, síðar kunnan skipstjóra, sem fæddist 6. júní 1891. Menn hafa óttast að færi hún laus og liðug í aðrar sóknir kynni börnunum að fjölga og síðan yrði Suðureyrarhreppur að taka við allri þessari yfirvofandi ómegð. Þegar á reyndi neitaði Guðbjörg hins vegar að láta kyrrsetja sig og fór ógift norður í Bolungavík um vorið. Þar voru þau Ásgeir gefin saman í hjónaband 17. október 1891 og voru þá bæði vinnuhjú á Geirastöðum. Frá sjónarhóli okkar sem nú lifum er fundarsamþykktin frá 1891 um farbann á Guðbjörgu reyndar dálítið spaugileg, ekki síst í ljósi þess að synirnir þrír, sem hún eignaðist með Ásgeiri, urðu allir sérstakir dugnaðarmenn og kunnir aflaskipstjórar. Bátar og togarar með nafni þessarar fátæku stúlku hafa nú (1996) lengi verið gerðir út frá Ísafirði og hafa stundum flutt að landi meiri afla en önnur skip í eigu Vestfirðinga. Guðbjörg sú Pálsdóttir sem hér um ræðir var amma Ásgeirs Guðbjartssonar er lengst var skipstjóri á togaranum Guðbjörgu sem bar hennar nafn.“