Gufudalskirkja

Gufudalskirkja. Ljósmynd Friðjón Árnason

Gufudalskirkja er í Reykhólaprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.

Gufudalur er bær, kirkjustaður og fyrrum prestssetur í samnefndum dal uppi af Gufufirði.

Þar voru kaþólsku kirkjurnar helgaðar Guði, Maríu guðsmóður og heilögum krossi.

Kirkjan, sem stendur þar nú, var hönnuð af Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og byggð árið 1908.

Gufudalskirkja er timburhús, 7,60 m að lengd og 5,74 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,54 m að lengd og 2,28 m á breidd.
Þak kirkju og turns er krossreist.

Á stöpli er klukknaport með tveimur bogadregnum opum á hverri hlið og lauklaga hvolfþak yfir.
Undir klukknaporti er lágur stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd, turnstallur og veggir klukknaports timburklæddir, laukþakið klætt sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir krosspóstagluggar bogadregnir að ofan og þakgluggi hvorum megin á þaki yfir setulofti. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri bogadreginni hurð. Yfir þeim er hringgluggi í burstlaga umbúnaði.

Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn af og bekkir hvorum megin hans. Setuloft á fjórum stoðum er yfir fremri hluta framkirkju og sveigður stigi við framgafl sunnan megin dyra. Kórbogaþil er klætt á kórgafl yfir altari og undir því eru tvær stoðir og tvær veggsúlur felldar inn í grátur.
Hvorum megin kórbogans er flatt loft út að veggjum og undir því sunnan megin er stigi upp í prédikunarstól. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni er súð og flatt loft klædd strikuðum panelborðum neðan á sperrur og skammbita.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

DEILA