Girðing á þvergarði undir Kubba í óviðunandi ástandi

Of mikið bil milli garðtopps og girðingarnets greinilegt

Á fundi bæjarráðs í gær, 10. ágúst var tekin fyrir skýrsla Verkfræðistofunnar Eflu um ástand girðingar ofan á þvergarði undir Kubba. Samkvæmt skýrslunni hefur girðingin verið að hreyfast undanfarin ár eða jafnvel alveg frá því hún var sett upp. Nú er halli hennar orðinn meiri en ásættanlegt getur talist og bil milli girðingarnets og yfirborðs á garði hefur sömuleiðis aukist og það er hættulegt.

Farið var í ástandsskoðun í byrjun júlí og eftirfarandi kemur fram í skýrslu stofunnar:

„Ýmislegt kom í ljós við skoðun. Hæðarmunur á garðtoppi og efstu brún framhliðareininga í garði er víða mun meiri en eðlilegt getur talist, sum staðar allt að eða jafnvel meira en 0,5 m. Þetta leiðir til aukins álags á framhliðareininguna þ.a. hún ýtist út og girðingin fylgir með. Þá er greinilegt að sumir staurarnir hafa hallað frá byrjun þar sem þeir halla þar sem þeir koma upp úr steypta hólknum og liggja út í öðru byrði hans. Grafið var niður með einum staur, staur númer 60 talið frá austurenda garðsins. Grafið var ca. 60 cm niður fyrir topp garðsins. Ekki var neitt geogrid aftan við steypta hólkinn sem staurinn er festur ofan í og ekki þótti líklegt m.v. hversu laus hólkurinn var orðinn þegar komið var þetta djúpt að hann væri í fullri dýpt. Orsakir hreyfinga og aflögunar geta verið blanda af öllu þessu sem talið er upp hér að ofan en einnig getur verið að álag frá snjó og vindi þegar girðingin er full af snjó sé of mikið fyrir girðinguna þar sem girðingin stendur því sem næst þvert á aðalvindáttina á svæðinu NA áttina.“

Mælt er með því að annarri girðingu verði komið upp og að núverandi girðing verði fjarlægð.

bryndis@bb.is

DEILA