Af hverju renna á mann tvær grímur?

Vísindavefur Háskóla Íslands er duglegur að svara hinum ýmsum spurningum og gæti eflaust svarað spurningum Ara í Aravísum eftir Ingibjörgu Þorbergs (lag) og Stefán Jónsson (texti). Ein af mikilvægari spurningum haustsins 2020 er hvenær, hvort og hvernig skuli nota grímur.

Hvaða gagn gera grímur við Covid19 smiti

Þetta er spurning sem Vísindavefurinn hefur svarað og segir meðal annars:

„Grímur koma einkum að gagni við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi til að verja heilbrigðisstarfsfólk gegn sýkingum þegar það umgengst fólk með COVID-19-sýkingu. Þær eru þá hluti af víðtækum hlífðarbúnaði og vörnum. Þetta eru sérstakar sóttvarnargrímur með gatastærð um 0,3 míkrómetra, sem hleypa ekki í gegn örsmáum ögnum svo sem veirum. Þetta eru dýrar grímur og af skornum skammti.

Í öðru lagi eru einfaldar grímur, geta jafnvel bara verið trefill eða annað klæði, sem gegna fyrst og fremst þeim tilgangi að hremma dropa sem myndast við hóst og hnerra. Talið er að SARS-CoV-2 veiran berist einkum milli manna beint með slíkum úðadropum, eða óbeint um fleti sem fólk snertir.

Einfaldar grímur af þessu tagi geta dregið töluvert úr hættu á því að smitaður einstaklingur smiti aðra, en er þó ekki fullkomin vörn, og getur veitt falskt öryggi, því að hinn smitaði getur vel borið smit með höndunum ef hann gáir ekki að sér.

Sama er að segja um grímur sem vörn fyrir ósmitaða, þær geta veitt vörn fyrir hósta eða hnerrasmiti nálægs smitgjafa, en verja ekki fyrir snertismiti, beinu eða óbeinu, sem er algeng smitleið.“

En af hverju renna á mann tvær grímur?

Þessari spurningu svarar Guðrún Kvaran prófessor árið 2010, reyndar að öllu leyti óviðkomandi grímum til varnar Covid smiti. Hún segir:

„Orðtakið tvær grímur renna á einhvern ‛einhver er á báðum áttum, einhver efast um eitthvað’ þekktist þegar í fornu máli og kemur fram í vísu sem Grettir Ásmundarson á að hafa kveðið. Uppruninn er ekki ljós en Halldór Halldórsson nefnir þrjár skýringar í doktorsritgerð sinni Íslenzk orðtök (1954:205-207). Ein þeirra er úr orðabók Eiríks Jónssonar, Oldnordisk Ordbog (1863), þar sem gríma í orðtakinu er talin merkja ‛andlitssvipur’ sem sýni að viðkomandi er á báðum áttum. Halldór bendir á að sá galli sé á skýringunni að orðið gríma sé annars ekki notað í þessari merkingu.

Önnur er úr orðabók Cleasbys-Vigfússonar, Icelandic – English Dictionary (1869), þar sem giskað er á að átt sé við múl sem renni á hest. Halldór hafnar þessari skýringu algerlega en giskar fremur á að gríma hafi táknað kippiþráð á veiðineti og vitnar þar til merkinga grime í dönsku ‛möskvi, net’ og grimma í sænsku. Ef tveir slíkir þræðir færist að dýrinu verði það óöruggt.

Jón Friðjónsson nefnir þá skýringu í Mergi málsins (1993:200) að uppruninn kunni að tengjast rómverska guðinum Janusi sem hafði tvö andlit og gat bæði séð fram fyrir sig og aftur fyrir sig í einu. Þannig vísi tvær grímur til óvissu.“

Hvernig á að nota grímur

Þessari mjög svo mikilvægu spurningu hefur Vísindavefurinn líka svarað og mikilvægt að kunna á því skil hvernig nota skal grímur svo gagn sé að.

  • Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
  • Gríman þarf að hylja nef og munn.
  • Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
  • Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
  • Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður, henni skal fleygja á öruggan hátt og hendur þvegnar að því loknu.
  • Ef nota þarf grímu í langan tíma á að skipta reglulega til að koma í veg fyrir rakamettun (á sérstaklega við um einnota grímur).
  • Fjölnota grímur þarf að þvo daglega (aðferð fer eftir gerð grímu).

bryndis@bb.is

DEILA