Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækka verulega í ákvörðun stjórnvalda sem tilkynnt var um 24. júní sl. Mest lækka framlög sem byggja á skatttekjum ríkissjóðs, en það eru tekjur af fasteignaskatti, útgjaldjöfnunarframlög og almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks.
Framlög til Vesturbyggðar lækka um 17,6% eða sem nemur tæpum 66 millj. kr. og hefur það veruleg áhrif á rekstur sveitarfélagsins.
Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega niðurskurði á framlögum Jöfnunarsjóðs og hvetur fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að bregðast við þessum mikla niðurskurði. Í bókun bæjarráðsins segir að verði engar breytingar gerðar á áætlun Jöfnunarsjóðs megi ætla að verulegt tap verði á rekstri sveitarfélagsins á þessu ári, þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi ráðist í miklar og sársaukafullar hagræðingaraðgerðir á árinu 2019 og 2020.